Kreppan

Amma og afi í aðra ættina fæddust bæði í torfkofum sem héldu hvorki vatni né vindum. Afi þurfti á tímabilum að bíða í röð eftir að vita hvort að vinna yrði þann daginn. Afi og Amma ólu önn fyrir sex börnum, bjuggu á tímabili í bragga (sem hélt bara stundum veðri og vindum). Síðan eignuðust þau tveggja herbergja íbúð í Lauganeshverfinu, það fór víst ansi vel um alla þar. Auðvitað voru þrengsli í íbúðinni en hún var hlý, hélt vatni og vindum. Og þar var yfirleitt alltaf til nægur og góður matur á borðum. Eftir því sem mér skilst þá voru allir hamingjusamir á þessum góða bæ. Seinna þegar börnin voru öll flutt að heiman þá eignuðust Afi og Amma fjögurra herbergja risíbúð í Hlíðunum, í þeirra augum var það ekki íbúð heldur frekar höll. Ég man að Afi var með umslög í púlti inni í einu herberginu, eitt umslagið var merkt 'þak', annað var merkt 'gluggar' og svona koll af kolli. Í umslögunum var sem sagt peningur sem lagður var í þau um mánaðarmót. Þegar kom að viðhaldi hjá Afa var alltaf búið að safna fyrir því sem var framkvæmt. Hann var uppalinn við þröngan kost, ekki fátækt en þröngan kost. Ég hef aldrei safnað svona í umslög en gæti vel hugsað mér að taka upp þennan góða sið. Opna nokkra bókarreikninga í bankanum, kalla einn 'glugga' annan 'þak', þann þriðja 'sumarbústaður' og svona koll af kolli. Eins og Afi gerði.

Afi í hina ættina fæddist undir öðrum kringumstæðum, það var betri afkoma hans megin, nám í útlöndum og gott hús að búa í, ágæt efni alla tíð meira og minna. Amma þeim megin var eins og Amma hinum megin. Fædd við þröngan kost eins og vel flestir á þeim tíma. Það var alltaf til matur en sjaldan mikið meira. Það þótti ekki tiltökumál að margir væru saman í herbergi. Það þótti líka sjálfsagt í æsku Afa þó svo að þar hefðu verið meiri efni. Afi sem var alltaf betur stæður, barst aldrei á. Hann bjó í góðu húsi alla tíð. Hann átti ágætis eignir framan af. Hann vann alla tíð mikið. Var duglegur eins og Afi hinum megin. Hann tók ekki oft lán, en í þau fáu skipti sem hann gerði það þá var það að mjög vel ígrunduðu máli. Þegar hann 'skrifaði uppá' fyrir foreldra mína þurfti það líka sinn tíma og sínar vangaveltur. Það var ekkert sjálfsagt að taka lán.

Mamma og Pabbi hafa alltaf haft það fínt. Pabbi vann alltaf eins og vitlaus væri. Staðráðinn í því að bjóða sinni fjölskyldu upp á betri afkomu en hans kynslóð ólst upp við. Það var nóg að gera, mamma var heimavinnandi lengst framan af og það var heilmikið mál þegar hún ákvað að búa sér til karríer. Auðvitað voru það forréttindi okkar systkyna að fá að hafa Mömmu heima þegar við komum heim úr skólanum á daginn. Pabbi er iðnmeistari að mennt eins og Afi var. Þau eiga allt sitt á þurru og hafa aldrei lent í vanskilum nema þá í gegnum ábyrgðamennsku, en Mamma og Pabbi hafa alltaf gert allt fyrir börnin sín. Þau eiga fína íbúð, smá landskika og sumarhús á dýrasta stað á landinu en hafa alltaf þurft að hafa fyrir sínu. Þau hafa aldrei verið neitt sérstaklega skuldug og verða ekki úr þessu.

Við systkynin erum ágætlega stödd í lífinu, erum öll vel menntuð og höfum fengið fullt af góðum tækifærum. En að sjálfsögðu spilað misvel úr þeim frá einu tímabili til annars en alltaf hefur ræst vel úr öllu. Vð erum öll í ágætis standi í dag, erum alin upp við sparsemi í æsku og ekkert óhóf. Ég er klár á því að ég var aldrei keyrður eitt né neitt, ekki í skólann, ekki á æfingar og þaðan af síður niður í bæ. Maður tók bara strætó eða gekk eða hjólaði og við erum ekki að tala um nein fjallahjól. Við erum af verðbólgu og neyslu kynslóðinni.

Ég hef innbyggt frumkvöðlagen og hef því átt það til að tapa peningum og vera launalaus á tímabilum í fyrirtækjabrölti. Það er ekki best borgaða aukavinna í heiminum að vera rithöfundur. En það er alveg yndislegt að fá bækurnar sínar útgefnar, fá að skrifa að vild og fá pínu laun fyrir það í þokkabót. Nú svo veit maður aldrei hvað gerist í þeim efnum. Það er verið að þýða Þrjá daga í október hjá fínu forlagi í Þýskalandi og svo eru Svíar að tala við mig um útgáfu og ég er eiginlega ekkert farinn að vinna í þessu ennþá. Þetta hefur bara gerst. Nú svo er ég með nýja bók klára, kannski kemur hún út fyrir jól, kannski eftir áramót og þá beint í kilju. Ég veit það ekki ennþá það kemur í ljós. Fer eftir því hvort að ég nenni að klára yfirferð yfir handritið núna í næstu viku. Svo er ég byrjaður að skrifa barnabók sem er svo spennandi að ég hef eiginlega ekki tíma í að klára að fara yfir handritið á nýju bókinni. Hugsa sér hvílík forréttindi þetta eru. Gefur ekki marga peninga en Guð minn góður, hvaða máli skiptir það akkúrat núna. Það leggst örugglega eitthvað til.  

Börnin okkar eru alveg ótrúleg, öll að gera það sem þeim langar til. Tvö þau elstu vel menntuð með allt á tæru. Það yngsta á sömu leið. Fara ágætlega með, eru samt alin upp við allsnægtir. Ég er viss um að Afi og Amma hefðu ekki ímyndað sér að svona ríkidæmi ætti eftir að verða almennt á Íslandi. En þau fara samt vel með, geta gert það sem þau vilja. Unnið hvar sem er í heiminum og fengið vel fyrir. Ég vona að okkur Ísledingum beri gæfa til að halda börnunum okkar áfram á Íslandi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband