18.10.2008 | 19:04
Þung spor
Það er þyngra en tárum tekur að horfa til þess hvernig við ríkjandi kynslóð þurfum að skila landinu okkar til afkomenda okkar, fæddra og ófæddra. Þjóðin er að þrotum komin, þessi sterka þjóð barin af öldum Atlantshafsins, óblíðu veðurfari og lífsbaráttu aldanna. Kominn að þroti eftir að hafa farið í gegnum mestu efnahags uppsveiflu í sögu þessarar stoltu þjóðar á norðurhjara veraldar.
Hvað með ábyrgðina? Ætla auðjöfrarnir virkilega ekki að selja eignir sínar og borga skuldirnar? Ætla auðjöfrar að láta alþýðu þessa lands borga skuldirnar með eignum sínum? Ætlar virkilega enginn að ganga fram og lýsa ábyrgð vegna þess hvernig komið er? Ætla auðjöfrarnir vikilega ekki að taka ábyrgð og taka þátt í endurreisninni? Hvað með þingmanninn Illuga Gunnarsson sem sat í stjórn sjóða hjá Glitni, ætlar hann að axla ábyrgð? Hvað með ríkisstjórnina sem er búin að vera við völd í 18 mánuði, ætlar hún að axla ábyrgð?
Við eigum engan kost lengur, við verðum leita til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins þrátt fyrir þau þungu skilyrði sem okkur eru sett um hátt vaxtastig og hægan bata gengisins. Skilyrði sem munu leiða af sér mikið atvinnuleysi og mikla verðbólgu sem aftur mun skila okkur fjöldagjaldþroti einstaklinga á Íslandi. Hvað skyldi tefja umsóknina um fyrirgreiðslu sjóðsins? Haldið þið að það séu þung spor ráðamanna sjálfstæðrar þjóðar? Skyldi það vera að eitt skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé að sett verði stjórn fagaðila í seðlabankann. Gæti það verið að Davíð Oddson sé að tefja málið vegna þess að sjóðurinn geri það að skilyrði að hann taki pokann sinn?
Ákvörðun á allra næstu dögum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fritz - það er Jón Baldvin og Evrópukratarnir sem hafa komið okkur í þá stöðu að reka okkur í fang Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Samningurinn um evrópska efnahagssvæðið liggur til grundvallar útrásarstarfsemi bankanna. Fjármálaeftirlitið reyndi af vanmætti að spyrna við fótum og Davíð Oddsson, af öllum mönnum!, hefur á síðustu árum varað við stöðunni, í ræðu og riti opinberlega, og án efa líka á bak við tjöldin. En þingmenn, með Samfylkinguna í fararbroddi, hafa heimtað að tekið yrði erlent lán sem nemur tífaldri þjóðarframleiðslu sem þjóðin skyldi bera byrðar af, í þeim tilgangi að útrásarvíkingarnir hefðu varasjóð til að vísa í eða grípa til ef illa færi. Vinir okkar í Evrópusambandinu höfðu samráð við Bandaríkjamenn og fleiri um að styðja okkur ekki nema við leituðum til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Ábyrgðin liggur sem sagt víða. Fyrst hjá Jóni Baldvini og kumpánum hans sem keyrðu sem fastast á að við samþykktum samninginn um evrópska efnahagssvæðið - og síðan hjá þeim sem nýttu sér frelsi Evrópusamningsins til hins ítrasta. En hvor ábyrgðin er meiri - þeirra sem skópu kerfið - eða hinna sem nýttu sér það?
Teddi (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 19:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.