Handboltahetjur og fleira skemmtilegt

Ég fór í dag að horfa á handbolta. Ég sá tvo leiki annar var á milli Víkings og Hauka, hinn á milli Víkings og Vestmannaeyinga. Hvílík skemmtun, fölskvalaus gleði og ánægja á ferðinni þar. Um var að ræða keppni í 6ta flokki karla og yndislegt að sjá takta þessara bráðefnilegu ungmenna sem þar voru á ferðinni.

Ástæða þess að ég fór að horfa á í dag var sú að systursonur minn var að keppa með Víkingum. Ég get lofað ykkur því að ég kallaði aldrei áfram Víkingur enda væri það óþægilega mikið í ætt við föðurlandssvik þar sem ég er uppalinn í Árbænum og hef aldrei nokkurn tímann getað notað annað hróp við svona tilefni en áfram Fylkir, en það átti auðvitað engan veginn við í dag. Mér tókst þó að komast í gegnum leikina með ýmsum tilfærslum og orðasamböndum sem nýttust vel til hvatningar án þess að ég þyrfti að taka mér óviðunandi orð í munn.

Það var ekkert stórmál hjá leikmönnum þó að leikir væru að tapast eða eitt og eitt klúður ætti sér stað inni á vellinum. Aðalmálið var skemmtunin, góð tilþrif glöddu augað og augljóst að það eru ekki margir mánuðir síðan Ísland vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking. Einn pabbinn sem þarna var og ég kannast lítillega við hvíslaði því að mér að það hefðu aldrei fleiri krakkar verið að æfa handbolta en akkúrat núna, og svo tölum við um kreppu. Afsakið, ég var búinn að lofa að tala ekki um kreppu um helgar og ætla af fremsta megni að reyna að standa við það. Sem minnir mig á klassík úr Star Wars myndunum sem reyndar hefur alltaf verið ein af mínum uppáhalds, en það er YODA sem á þessa fleygu setningu:

There is no try, just to do.


Útgáfukvíði

Jæja elskurnar mínar, íslendingar fjær og nær, þá er kreppupása fram yfir helgi, ég hef ákveðið að sleppa öllu tali eða pælingum um pólitík um helgar (nema náttúrulega ef eitthvað alveg sérstakt kemur upp á)!

Ég var að klára að lesa umbrotna próförk að nýju bókinni minni sem kemur út í næstu viku og heitir Kalt Vor. Satt að segja þá er ég alveg búinn að fá nóg af þessu barni mínu í bili, en hlakka þó mikið til að fá fyrsta eintakið í hendur, ilmandi af prentsvertu, úr prentsmiðjunni á miðvikudag. Það er svo skrítið að ég hef ekki lesið hinar bækurnar mínar eftir að þær komu út, mér sýnist í augnablikinu að það verði það sama með þessa.

Útgáfukvíðinn er að hrella mig í augnablikinu. Ég er eins og venjulega fullur af efasemdum um að bókin sé klár, kannski ætti ég bara að bíða, kannski ætti ég að láta hanna ''kóverið'' aftur. Ég er að gefa út hjá öðrum útgefanda en venjulega um þessi jól og það er spennandi. Bókin verður þar af leiðandi í öðru formi en áður og það er spennandi. Ég er með nýjan lesara eða ritstjóra og það er skrítið ég var orðinn svo vanur því að lesa með Helga. Aðalmálið er þó alltaf hvernig lesendurnir mínir taka bókinni, ég fæ alltaf komment frá fólki og mér þykir vænt um það. Fyrir mig er mikilvægast að fólkið sem les bækurnar mínar hafi gaman af þeim, skemmti sér vel og þyki þær spennandi.

Góða nótt, hafið það sem allra best!

 


Blessaðir danirnir

Blessaðir danirnir, þeir hafa nú aldrei reynst okkur neitt sérstakt haldreipi þegar á þarf að halda, mér finnst samt alltaf vænt um dani. Það er ágætt að sækja þá heim þegar allt er í lagi en þeir eru fljótir að snúast á móti öðrum þjóðum ef svo ber undir. Höfum ekki áhyggjur af dönunum þeir eru bara svona en þar fyrir utan þá skiptir það engu máli, það er ekki svo djúpt á þeim. Annars held ég að það búi fleiri íslendingar í Danmörku en í öðrum löndum utan Íslensku lögsögunnar.

FLott hjá Skjá1 að vera bara með stillimynd í gangi í gær, þeir gerðu þetta til að leggja áherslur á kröfur um aðstöðujöfnun gagnvart tekjuöflunar Íslenskra ljósvakamiðla þar sem RÚV ber ægihjálm yfir samkeppni sína. Það má ekki loka Skjá1, fyrir marga er þessi stöð eini valkosturinn utan RÚV þar sem ekki þarf að greiða fyrir aðgang að henni. Leiðin er auðvitað sú að menntamálaráðherra leggi fram áætlun um að draga úr auglýsingabirtingum á RÚV, ég er ekki endilega að segja að RÚV geti ekki birt auglýsingar en það má takmarka útsendingar auglýsinga á ríkisfjölmiðlinum, enda borgum við öll í hítina þar hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Takmörkun auglýsingabirtinga á RÚV gæti bjargað Skjá1 og öðrum sem eru í samkeppnisrekstri við hið opinbera á þessum vettvangi. Björgum Skjánum.  

Hafið það sem allra best í dag!


mbl.is Danir vildu ekki bjarga Íslendingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltof stór banki

Ég hef haft kynni af Björgúlfi í gegnum tíðina og segji enn og aftur að hann er sómamaður sem vill öllum vel og ekki síst þeim sem minna mega sín. Ég er alveg klár á því að atburðarásin kom flatt upp á stjórnendur Landsbankans en það breytir ekki því að ábygðin hvílir þar, bankinn varð alltof stór og sást ekki fyrir þegar kom að útrásinni, þar liggur hans banabiti.

Seðlabankinn átti aldrei möguleika á því að bakka upp þessi miklu umsvif og það máttu menn vita, krónan sömuleiðis var alltaf veikur punktur og það gera sér allir viti bornir menn grein fyrir því að bankarnir, þar með talinn Landsbankinn, tóku stöðu á móti krónunni til að reyna að rétta eigin hag. En það virkaði öfugt og hagnaður bankanna á fyrstu ársfjórðungum ársins skaut undan þeim löppunum undir lokin. 

Biðjum og vonum að rétt reynist, eignasöfn bankanna dugi fyrir forgangskröfum og innistæðureikningum. Drífum okkur svo í því að sækja um aðild að EB og þar með taka upp Evru. Til þrautavara (eins og seðlabankamenn segja) er hægt að taka gjaldeyrisforðann, kaupa fyrir hann dollara (mest notaða gjaldmiðil í heiminum) og breyta um mynt á meðan við spáum í spilin og réttum úr kútnum.  

Gangi ykkur vel!


mbl.is Skuldir lenda ekki á þjóðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Göngum til samninga

Íslendingar eiga ekki aðra kosti en að ganga til samninga strax um greiðslu á skuldum vegna Icesave reikninganna. Því miður verðum við að ganga til þessara samninga með buxurnar á hælunum. Sækjum síðan menn til ábyrgðar þegar um hægist. Við getum ekki úthrópað heila þjóð sem óreiðuþjóð sem ekki borgar skuldir sínar. Ef rétt er haft eftir forsætisráðherra og fyrrum stjórnendum Landsbanka þá er hálft eignasafn bankans nóg til að greiða allar forgangskröfur, þar með taldar kröfur um endurgreiðslu á innistæðum í bankanum. Ef ekki átti að nota þá fjármuni sem fengjust með sölu eigna bankanna til að greiða þetta hvað átti þá að gera við þá? Kosturinn í stöðunni er ekki annar en að ganga til þessara samninga, fara síðan í að losa þessar eignir þegar réttur tími er til þess og láta þær þá greiða obbann af  lántökunni vegna Icesave.

Íslendingar verða síðan í framhaldi af þessu að standa keikir á lögsóknum gegn Bretum, við verðum að sækja þá vegna hryðjuverkalaganna sem beitt var gegn Íslandi, við verðum líka að sækja mál vegna Kaupþings í Bretlandi. Íslensk stjórnvöld verða að sína af sér dug og fordæmi við þessar erfiðu kringumstæður sem nú eru. Við eigum hins vegar ekki undir neinum kringumstæðum að láta beygja þjóðina undir kúgun annarra ríkja. Við eigum að láta Breta finna til tevatnsins með stirðum samskiptum þar til þeir axla sína ábyrgð. Við eigum ekki að hleypa Bretum hér inn í landið til að gæta lofthelginnar. Verum áfram stolt þjóð í norðri sem lætur ekki kúga sig. Förum lagaleiðina eins og við höfum alltaf gert, þar mun styrkur þjóðarinnar liggja að lokum. 

Gangi ykkur sem allra best í dag. 

 


mbl.is Samningar um Icesave eina leiðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glitnir bjargar málunum!

glitnir fjármögnun 

Greililegt er af myndinni hér að ofan sem náðist í skjóli myrkurs að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af bankakreppunni, ríkisbankarnir eru greinilega í vaðandi uppsveiflu og byggja upp sem aldrei fyrr Þrátt fyrir höfnun lánsumsóknar hjá IMF og harðvítugar deilur við stórar þjóðir í Evrópu. 

Gangi ykkur allt í haginn í dag!

 

 

 


mbl.is Afgreiðslu umsóknar frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klúður

Stjórnarheimilið virðist vera þrúgað af þreytu um þessar mundir. Geir virðist ekki klár á því hvort formlegt erindi hafi borist til IMF, segir þó að þeir hafi sent 'letter of intent' á þriðjudaginn. Síðast þegar ég kannaði skúmaskotin þýðir 'letter of intent' viljayfirlýsing ekki lánsumsókn. Til að hafa þetta á hreinu þá vinna menn oft viljayfirlýsingar eða 'letter of intent' til að móta samninga áður en til þeirra er gengið. Ef rétt er haft eftir forsætisráðherra í blöðunum í morgun þá er ekki búið að senda umsókn til sjóðsins, heldur eingöngu drög að viljayfirlýsingu!

Síðan koma skilaboð til okkar Íslendinga frá Finnum í gegnum Wall Street Journal það ágæta blað að þeir þurfi meiri upplýsingar um aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar áður en þeir getir tekið afstöðu til lánaveitingar alþjóða samfélgsins til Íslensku þjóðarinnar. Hvað er að? Ekki nóg með að við séum búin að gera í nytina okkar heldur virðumst við líka vera óhæf um að hysja upp um okkur buxurnar.

Jóhanna Sigurðardóttir sýnir þó engin þreytumerki og gengur fyrir skjöld í ríkisstjórninni og kallar eftir aðgerðaráætlun og það strax. Þetta er einmitt málið, ríkisstjórn landsins verður að koma með aðgerðarpakka, sem hefði auðvitað átt að vera klár fyrir margt löngu síðan. Ríkisstjórnin verður að afgreiða þetta strax annars er ljóst að hún er ekki starfhæf og verður því að rjúfa þing, mynda þjóðstjórn og boða til kosninga.


mbl.is Finnar vilja meiri upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Róttækur jafnaðarmaður

Ég var spurður að því í dag hvað það þýddi að vera róttækur jafnaðarmaður, hvað er það spurði minn maður, ég hef aldrei heyrt áður af róttækum jafnaðarmanni.

Góð spurning, einfalt svar, gæti verið mjög langt en ég ætla að hafa það stutt, skrítið samt að fáir hafi heyrt af róttækum jafnaðarmönnum vegna þess að við erum út um allt, allsstaðar í öllum flokkum og allsstaðar í þjóðfélaginu. Auðvitað viljum við öll það sama þegar upp er staðið:

Róttækur jafnaðarmaður eins og ég vill lifa í þjóðfélagi sem byggir á eftirfarandi stefjum:                Frelsi, jafnrétti, bræðralag

Ég er ekki tilbúinn til að veita afslátt af þessum þremur grunnkröfum okkar jafnaðarmanna, ég geri þær kröfur til jafnaðarmanna í stjórnmálum að þeir axli ábyrgðina sem fylgir frelsinu. Ég vill skilyrðislaust ganga til samninga um aðild að EB, við jafnaðarmenn höfum alltaf staðið við alþjóðasamstarf. Ég styð eðlilega auðlindanýtingu eins og við jafnaðarmenn höfum alltaf gert. Ég er þeirrar skoðunar að eina leiðin til að reisa við efnahag þjóðanna sé sú að koma á Demokratísku þjóðfélagi..........................................................................

Gangi ykkur öllum allt í haginn!


Hiti í mannskapnum

Egg, jógúrt og skyr dundu á framhlið Alþingishússins. Ég eins og svo margir aðrir lagði leið mína á Austurvöllinn núna í dag til að taka þar þátt í friðsömum mótmælum. Það er mikill hiti í fólki, mikil óvissa og það fór ekki á milli mála að það er örstutt í slagsmál í Reykjavík.

Lögreglan með Geir Jón í fararbroddi virtist hafa stjórn á sínum mönnum, lögreglan virtist þó vera fáliðuð og þurfti nokkrum sinnum að hörfa undan mannfjöldanum. Ég held að ég hafi aldrei upplifað svona sterka undiröldu óánægju hjá fjölda fólks af öllum toga eins og í dag. Það mátti engu muna að upp úr syði.

Á þessum skelfilegu tímum verða Íslensk stjórnvöld að hysja upp um sig brækurnar og taka ábyrgð, sýna þjóðinni þá virðinga að upplýsa um stöðu mála. Sýna þjóðinni þá virðingu að taka til í bankakerfinu og láta þá sem tóku þátt í sukkinu fara. Nánast allir stjórnendur gömlu óreiðufyrirtækjanna eru að vinna sem ráðgjafar hjá skilanefndum við að rannsaka sjálfa sig. þetta gengur ekki lengur, stjórnvöld verða að skipta strax um í brúnni. Ríkisstjórnin verður að axla ábyrgð og það strax. Treysti þeir sér ekki til þess er eina leiðin að mynda þjóðstjórn, rjúfa þign og boða til kosninga nú þegar.

Guð blessi alla Íslendinga!


mbl.is Eggjum kastað í Alþingishúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmdur fyrir fjárdrátt og bókhaldsbrot - starfar við lánveitingar hjá Landsbankanum

Er þetta fordæmið sem nýju bankarnir ætla að sýna. Tryggvi Jónsson fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs, starfar enn hjá Nýja Landsbankanum í deild sem sinnir svo kölluðum erfiðum útlánum til fyrirtækja sem eru í viðskiptum hjá Landsbankanum. Hafði Nýji Landsbankinn frumkvæði að sölu hagnaðardeilda 365 miðla til fyrrum vinnuveitenda Tryggva Jónssonar? Trúið þið þessu? Halda þessir menn að fólk yfir höfuð sé fífl? Það er í það minnsta ástæða til að efast um heilindi Nýja Landsbankans. Haldiði virkilega að fólk sé fífl?

Og hvað svo, hverjir ætla að reka bankana eða hafa stjórnvöld ekki tíma til að spá í það. Ég get ekki betur séð en að allavega einn hinna nýju formanna bankaráðanna ætti að vera á eftirlaunum eða hvað? Það er einungis eitt sem hægt er að gera til að tryggja það að bankarnir öðlist traust að nýju. Það verður að skipta algerlega um yfirstjórnir í þeim. Báðar bankastýrurnar í nýju bönkunum eru að gegna í dag nákvæmlega sömu störfum og þær gegndu í gömlu bönkunum og miðað við launakjörin þá hefur græðgisvæðingin ekkert breyst. Ég þekki verulega hæft fólk sem væri til í að taka þessi störf að sér fyrir hálfvirði núverandi stjórnenda. Haldiði virkilega að fólk sé fífl?

Ég hitti mann á förnum vegi í dag. Hann sagðist eiga þá ósk heitasta fyrst að peningarnir hans væru í gíslingu hér á Íslandi, að bara einhver banki annarsstaðar frá myndi opna útibú hér. Hann gæti þá allavega treyst einhverjum fyrir því litla sem hann á. Haldiði virkilega að fólk sé fífl?

Góða helgi..


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband