Réttur andi í góðum draumi....

Það er tímabært að ráðamenn láti frá sér skilaboð sem innihalda bjartsýnistón, þjóðinni veitir ekki af að heyra eitthvað jákvætt um þessar mundir. Össur má líka eiga það skuldlaust að yfirleitt skefur hann ekkert af hlutunum. Lætur sínar skoðanir í ljós og gerir sitt besta til að standa við þær. Hvað varðar olíudrauma Iðnaðarráðherra þá eru þeir af hinu góða, það er fólgin í þeim von og það er gott.

Það er gleðiefni fyrir okkur sem höfum gaman af því að blogga um fréttir tengdar þjóðlífi og stjórnmálum að hér er loksins að finna frétt tengda stjórnmálum og atvinnu í landinu með jákvæðum undirtón. Það væri athugandi fyrir ráðherra vora og þingmenn að gera sér far um það að flytja okkur eins og ein jákvæð skilaboð á dag. Ég lofa því að taka alltaf undir slíkt, óháð því hvort í skilaboðunum felist óraunhæfir draumar eða ekki. Við höfum öll gott af því að vera jákvæð í öllum bölmóðinum..... Þótt ekki væri nema einu sinni á dag.

Gangi ykkur öllum vel og eigið gott kvöld..


mbl.is Í draumi sérhvers manns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk er ekki fífl....

Ég fór á fundinn í Háskólabíói í gær, þegar ég kom var fullt út úr dyrum og ekki um annað að ræða en standa í gættinni. Það skipti engu máli, skiptir engu hvar maður hírist þegar andi þjóðarinnar er með þessu móti. Haldi einhver því fram að þarna hafi þjóðin ekki verið þá er það rétt. En þarna var svo sannarlega þverskurður þjóðarinnar. Kröfur fólks eru skýrar, það vill breytingar en umfram allt þá vill fólk að komið sé fram við það eins og fólk. Fólk er nefnilega ekki fífl.

Frummælendur fundarins voru fínir, Þorvaldur Gylfa fór á kostum að venju. Stjórnmálamennirnir okkar sem allir eru vænsta fólk hafa ekki enn fundið leið til að komast úr fari hinnar pólitísku ræðu. Það er kominn tími til að stjórnmálamenn fari að tala eins og annað fólk. Fólk er nefnilega ekki fífl.

Hinir almennu fundargestir voru þó þeir sem áttu fundinn: Óðaverðbólga, áhyggjur af íbúðalánum, áhyggjur af vinnu, hvað á að gera ef fólk gefst upp og hættir að borga, af hverju eigum við að borga annarra manna brúsa, hvað á að gera við þá sem frömdu glæpinn og svo margt margt fleira. Samtalið sem átti sér stað í gær sýndi glöggt hvað fólkið í landinu er að hugsa, fólkið spurði heiðarlegra spurninga, svör stjórnmálamannanna höfðu tilhneigingu til að verða loðin. Fólk vill fá svör. Fólk er nefnilega ekki fífl.

Gangi ykkur sem allra best í dag.. 


mbl.is „Þetta er þjóðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örugglega saklaus eins og gaukur..

Hann er örugglega saklaus eins og gaukur blessaður maðurinn, það eru það allir um þessar mundir. Hann hefur bara talið sig vera í sama geimi og aðrir íslenskir bankamenn. Millifært nokkur hundruð milljónir á vini og kunningja, notað sér trúnaðarupplýsingar, verið í smá peningaþvætti. Hvað er málið, menn verða nú að bjarga sér! 
Nú síðan er augljóst að maðurinn hlýtur að vera að gera góða hluti í útrásinni. Örugglega búinn að hasla sér völl í Dubai. Og orðinn stór í gjaldeyrisviðskiptum eins og allir alvöru bankamenn á Íslandi.
Hvar endar þetta....

mbl.is Risavaxnar millifærslur hjá Virðingu hf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saklausir eins og gaukar og sitja áfram við kjötkatlana....

Er ekki ótrúlegt að fylgjast með sirkusnum sem áfram tekur ólíkindastefnur. Allir gömlu jöfrarnir eru saklausir eins og gaukar og almenningi er bent á að líta sér nær þar sem hann keypti sér sjónvörp og bíla í uppganginum. Halló, hvað er í gangi. Getur verið að eignarhald auðjöfranna á fjölmiðlum landsins sjái til þess að almenningur sé mataður eins og við á? Bankastjórinn segist hafa farið að öllum reglum um lánveitingar þegar hann lánaði vinnuveitendum sínum pening -nema hvað.

Sennilega hefði ég nýtt mér það sjálfur ef ég hefði gert mér grein fyrir því að ég gæti rölt inn í bankann minn og fengið lánaðar tuttuguþúsundmilljónir á nafni platfyrirtækis og hefði ekki einu sinni þurft að skrifa nafnið mitt til að ábyrgjast lánið. Skyldi sama reglugerðarverk vera í gangi í bönkunum í dag? Það er líklegt þar sem sama liðið stjórnar bönkunum og notar sömu stefnu og áður og lánar þar með sama liðinu og niðurfellir skuldir hjá sama liðinu -sjá 365 dæmið.

Frábær hugmynd sem ég held að eigi sínar rætur hjá þeim góða alþingismanni Helga Hjörvar er að fara Stasi leiðina að rannsókn hrunsins: Gerum öll gögn aðgengileg fyrir þá sem þau vilja skoða, blaðamenn, stjórnmálafræðinga, sagnfræðinga og svo framvegis. Hverjir skyldu þá sleppa? Jafnframt verður að setja af stað hefðbundna rannsókn undir eftirliti erlendra óháðra aðila. Með þessum hætti væri hægt að tryggja það að almenningur gæti treyst rannsóknum málanna. Og að sjálfsögðu verður að skipta út stjórnendum strax.

Að lokum varðandi kosningar. Það glymur allsstaðar í þjóðfélaginu krafan um kosningar og sést á nýjum skoðanakönnunum að almenningur er eindregið þeirrar skoðunar að það verði að boða til kosninga um leið og hægt er. Ekki strax, en um leið og við erum komin út úr brimskaflinum. Ríkisstjórnin ætti að setja upp aðgerðarplan þar sem tilgreint er hvað verður að gera og í hvaða tímaröð það verði gert. Við almenningur getum síðan einfaldlega merkt við atriðin eftir því sem þau klárast. Verði um að ræða að áætlunin hljómi upp á að þetta taki sex mánuði eða átta mánuði, þá gott og vel. En við verðum að horfa framan í það að umboð ríkisstjórnarinnar er einfaldlega ekki í gildi lengur. Ætli ríkisstjórnin að starfa áfram þá verður að endurnýja umboð hennar sem mun auðvitað ekki gerast miðað við skoðanakannanir. Sautján ár sjálfstæðismanna á valdastóli er alltof langur tími. Við búum í lýðræðisríki, að vísu mjög spilltu lýðræðisríki, en engu að síður, ráðherrar eiga ekki ráðherrastóla, umboð ríkisstjórnarinnar er útrunnið. Almenningur treystir stjórnvöldum ekki lengur.

Hafið það sem allra best í dag..


mbl.is Lárus Welding: Rangt að reglur hafi verið brotnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég ætla ekki að skrifa minningargrein...

Ástæðan fyrir því að við Íslendingar étum Ýsu í meira mæli en Þorsk sem er eins og allir vita miklu betri matfiskur en Ýsan, enda Þorskurinn ránfiskur en Ýsan hrææta, er sú að Bretarnir hirtu alltaf allan þorskinn á öldum áður en létu okkur hafa ýsuna. Smám saman varð það svo trú manna að Ýsan væri miklu betri fiskur, Þorskurinn fullur af ormum og nánast óætur nema þá í kjaftinn á Breskum sem nota hann í ''fissss end tsjippps''.

Mér finnst þetta ágætt dæmi um það hverju maður getur vanist, sjálfur elda ég miklu oftar Ýsu en Þorsk. Ekki það að mér finnst skemmtilegra að vinna með Þorskinn og hann er miklu betri. Ýsan er hins vegar innbyggð í mitt genasafn og það er bara fínt.

Ég held líka að það sé innbyggt í mitt genasafn að geta komist af, ég get auðveldlega hert ólina enn meir án þess að það hafi leiðinleg áhrif á líf mitt. Sömu sögu held ég að sé hægt að segja um flesta Íslendinga, ég veit ekki hvernig þetta er með Bretana, ég er ekki viss um að þeir myndu ráða bankahrun núna en vona samt fólksins vegna að þeir hafi þetta af. Þetta snýst nefnilega allt saman um fólk þegar upp er staðið. EKki auðjöfra, auðæfi eða eignir. Heldur bara venjulegt fólk, afkomu þess og skjól, börnin okkar allra. Fólk er allsstaðar eins, það verðum við að muna og virða.

Gangi ykkur allt í haginn í dag!


mbl.is Bretland sömu leið og Ísland?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlileg framvinda

Það er sjálfsögð og eðlileg framvinda að þingmenn og ráðherrar, kjörnir af þjóð sem kallar á leiðréttingar og breytingar, boði kosningar á vori komandi. Þetta er krafa þjóðarinnar sem verið er að bregðast við, ekki krafa einstakra þingmanna eða ráðherra. Þeir stjórnmálamenn sem ekki eru samþykkir því að boða skuli til kosninga þegar mestu brimskaflarnir eru að baki ættu að líta sér nær og athuga hvað þeir eru að gera í stjórnmálum. 

Flestir eru sammála um að það þurfi að boða til kosninga eins fljótt og kostur er miðað við ástand það sem skapast hefur í Íslensku efnahags og þjóðlífi. Krafa þjóðarinnar er einföld, um leið og við höfum unnið okkur út úr mestu sköflunum þá kjósum við. Undanbrögð frá þessari kröfu verða ekki liðin, umboð stjórnvalda er runnið út og það verður að endurnýja. 

Undirbúum kosningar á vori komandi, gefum okkur hálft ár, það er yfirdrifinn tími. Ný öfl og nýjir menn þurfa þann tíma til að brýna vopn og undirbúa framboð sín. Það verður spennandi að fylgjast með þróun pólitísks landslags á Íslandi á næstu mánuðum en það er næsta víst að á því verða verulegar breytingar.  

Hafið þið það sem allra best í dag.


mbl.is Gagnrýnir Björgvin og Þórunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traust á erfiðum tímum

Það eru erfiðleikar framundan um það held ég að enginn efist og þá er spurningin hvernig Íslendingar ætla að takast á við slíkt skeið? Samkvæmt því sem IMF gefur út er mikil óvissa og áhætta fólgin í þeirri uppbyggingu sem framundan er, þar er vísað í fordæmalaust hrun Íslenska hagkerfisins.

Mikill halli verður á ríkisbúskapnum, atvinnuleysi verður mikið. Það eina jákvæða í þessu er vöruskiptahalli og viðskiptajöfnuður, þar verða tölurnar okkur í hag. Að sjálfsögðu vegna þess að hömlur verða á innflutningi á einhverjum varningi. Ég held að Íslendingar almennt séu alveg klárir í að herða ólina, það er einfaldlega innbyggt í gen Íslendinga að geta gert slíkt þegar á þarf að halda. Og þá komum við aftur að spurningu dagsins hvernig ætla Íslendingar að fara saman í gegnum þetta tímabil, hverjir eiga að leiða þjóðina og hvar ætlum við Íslendingar að enda?

Íslendingar þurfa fyrst og síðast stjórnvald sem þjóðin getur treyst. Þrátt fyrir Samfylkingarhjarta í brjósti mínu þá sé ég ekki að minn flokkur hafi það traust frá þjóðinni sem þarf, því miður. Það getur þó enn breyst en þá verða stjórnarliðar að axla ábyrgð hratt og grípa til aðgerða nú þegar. Tiltektin verður að hefjast nú þegar, þjóðin þarf að sjá spillingaröflin fara frá, við þurfum að sjá að stjórnvöld ætli að grípa til raunverulegra athafna. Ég er sannfærður um að við Íslendingar getum gert kraftaverk sameinuð en í sundrungu verður lítið úr verkum. Traust er lykilorð í umræðunni, það er ekki til staðar nú. Í stjórn lýðveldisins verða að vera jafnaðarmenn með einkennisorð jafnaðarstefnunnar að leiðarljósi: Frelsi, jafnrétti og bræðralag. Þá verða Íslensku þjóðinni allir vegir færir. 

Stjórnarflokkur jafnaðarmanna má ekki halda áfram að troða á jafnaðarstefnunni með valdhroka, yfirgangi og þáttöku í spillingu sem á sér fá fordæmi í vestrænu ríki. Snúum okkur frá verndun spillingaraflanna og þangað sem við eigum að horfa, til fólksins í landinu. Sýnum dug og verndum hag fólksins með raunverulegum aðgerðum. Vinnum traust og stöndum fyrir það sem jafnaðarmenn eiga að standa fyrir.

Guð gefi ykkur öllum góðan dag!

 


mbl.is Mikil óvissa um Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spilling

Geri Haarde sagði á blaðamannafundi á mánudag að Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu væri saklaus eins og gaukur og jafnframt að hann hefði gefið fullkomnar skýringar á sínum viðskiptum með bréf í Landsbankanum. Bara Það að Baldri væri faglega kunnugt um stöðu bankans og að hann hafi selt sín bréf bankanum korter fyrir þrot gerir hann óhæfan til starfa, í það minnsta á hann strax að fara frá á meðan mál hans eru rannsökuð. Allt annað er óeðlilegt og telst til opinberrar spillingar.

Yfirlýst stefna stjórnvalda er að gamlir spillingarstarfsmenn sitji ekki lengur í bönkunum. Hvað þá með starfsmann í Landsbankanum sem tengist útrásarvíkingunum og ég hef talað um hér áður, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs, dæmdur fyrir fjárdrátt og bókhaldssvik. Hann situr enn í sínu starfi í bankanum. Hvað með allavega tvo af nýju bankastjórunum sem stjórnuðu gömlu bönkunum jafnframt? Hvað með yfirstjórnendur gömlu bankanna sem sitja á hliðarlínunni í nýju bönkunum sem ráðgjafar? Hvað með stefnu bankanna sem er óbreytt frá því sem var? Hvað með peningamarkaðssjóðina, af hverju var dælt peningum í þá? Gæti það tengst þingmönnum, störfum þeirra og inneignum? Svona get ég haldið endalaust áfram og mun gera það þar til árangur næst!

Almenn tilfinning er sú og heyri ég þetta allsstaðar í þjóðfélaginu að fólk óttast að menn muni ganga frá spillingunni og halda áfram. Að engu verði eirt þar til búið verður að einkavæða upp á nýtt og tryggja nýju ríkisfyrirtækin í hendur gæðinga spillingarinnar. Allt bendir til þess að þetta sé nú stefna stjórnvalda og slíkt verður að stöðva nú þegar. Það er kominn tími til að stjórnmálamenn sem vinna í umboði þjóðarinnar vinni fyrir fólkið í landinu, fólkið sem kaus þá. Ekki fyrir spillingaröfl sem stöðugt krefjast þess að fá meira og meira.  

Gangi ykkur allt í haginn í dag.


mbl.is Ráðuneytisstjóri hugsanlega innherji
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eittþúsundþúsundmilljónir....

Einn milljarður inniheldur þúsund milljónir, rétt að minna á það reglulega. Það er orðið svo hversdagslegt að tala um milljarð, það kippir sér enginn upp við það að eiga eða skulda eins og einn milljarð en það er öllu meira eða verra að eiga eða skulda eittþúsundmilljónir.

Þá er Davíð kominn í geimið, saklaus eins og gaukur og botnar ekki neitt í neinu, hann má nú reyndar eiga það blessaður, að hann tók fjögurhundruð þúsund kall út úr gamla Kaupþing á sínum tíma í vandlætingu yfir kjörum stjórnenda bankans. Það að einhver einn aðili hafi getað skuldað bönkunum eittþúsundþúsundmilljónir er með ólíkindum en hverjir eiga að hafa eftirlit með bönkunum? Jú einmitt, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið, hvar voru þessar tvær stofnanir á undanförnum árum?

Gunnar Smári Egilsson minn gamli bekkjarbróðir missti sig í markaðssveiflunni og vatt sér í útrásina. Tapaði þar að sögn tuttuguogfjögurþúsundmilljónum en sagði síðan í viðtali hjá Agli Helga að hann hefði aldrei ætlað að fara að reka fyrirtæki hefði bara óvart orðið forstjóri og útrásarhönnuður. Smári sagðist hafa verið rosalega ánægður í blaðamannadjobbinu sem hann var í áður og botnaði bara ekkert í því hvernig hann lenti þarna. Í lok viðtalsins kom fram í máli Gunnars Smára að hann ætti einhvern smá pening eftir. Það væri forvitnilegt að vita hvað ''smá'' er í hugum gamla róttæklingsins.

Þeir ættu kannski að splæsa saman í sameiginlega varnarbaráttu gömlu andstæðingarnir Davíð og Gunnar Smári. Þeir geta allavega notað samskonar stragedíu.

Geir Haarde var spurður að því á blaðamannafundinum í gær hvort honum fyndist ekki rétt að gera eitthvað í málum ráðuneytisstjórans góða sem seldi hlut sinn í Landsbankanum eftir að hafa setið neyðarfund um bankann í London og hagnaðist að sjálfsögðu verulega á því korter fyrir gjaldþrot. Nei, Geir hélt nú ekki, það ætti nú ekki að veitast að þessum sómamanni sem gert hefði hreint fyrir sínum dyrum. Þetta er semsagt aðferðin sem á að nota, gæðingarnir munu ganga frá öllu saman saklausir eins og gaukar og munu síðan einkavæða bankana og byrja á nýrri rjómafleytingu eins hratt og auðið er.. Þetta er björguleg byrjun á uppgjöri, stjórnvöld verja spillinguna og standa að henni jafnframt.

það er ekkert traust sem hægt er að bera til þessa fólks lengur, með slíkum hætti kemur það fram núna þegar ljóst er að almenningur á að borga brúsann þeirra. Ingibjörg Sólrún varði í gær hagsmuni þess að láta vístölutryggðu lánin éta upp íbúðahúsnæði í landinu. Sagði að það yrði að hugsa um hagsmuni íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna. Það sem ég ekki skil, er það, hvernig í ósköpunum er hægt að leggja það saman að verðtryggingin eins og hún er hönnuð eigi að halda í stuttu fyrirséðu verðbólguskoti eins og nú er framundan. Það er ekkert sem segir að það sé eðlilegt, réttast væri að festa vísitöluna í ákveðnu millistigi á meðan þetta gengur yfir, það væri þá eitthvað bjargræði fólgið í því fyrir fjölskyldurnar í landinu. Fólk gæti þá hugsanlega haldið litlum hlut í eignum sínum. Eins og staðan er nú þá er stærsta rán Íslandssögunnar ný afstaðið og annað enn stærra farið af stað. Nú ætla stjórnvöld að ræna eignum almennings í landinu með óbilgjarnari hætti en áður hefur heyrst af.

Guð gefi ykkur öllum góðan dag! 


mbl.is Skuldar þúsund milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn eftir!

Steingrímur og hans fólk í Vinstri Grænum sitja nú ein eftir í andstöðu við aðildarumsókn til EB. Aðrir flokkar virðast ætla að taka undir með Samfylkingunni þegar kemur að vilja til að ganga í EB, ég að vísu veit ekki hver afstaða Frjálslyndra er en held að það skipti ekki máli. Annars hlýtur Steingrímur að vera orðinn þreyttur í hægri hendinni, hann er búinn að vera með hnefann á lofti svo lengi að það hlýtur að vera farið að taka verulega á. Ég þakka fyrir það að Steingrímur og hans fólk skuli ekki sitja við stjórnvölinn í dag, hvílík hörmungarsaga það hefði orðið, þá hefði verið hægt að nota þetta ágæta orðatiltæki með réttu; lengi getur vont versnað.

Stjórnvöld áttu ekki annan kost en að ganga til þessara samninga það hlýtur öllum að vera ljóst, bandamenn Íslendinga voru engir lengur og þvingun alþjóða samfélagsins alger. Þegar ég segi þvingun þá er ég ekki að segja að mér finnist neitt óeðlilegt við það. Það er eðlilegt að maður borgi skuldir sínar eða í það minnsta semji um þær með viðráðanlegum hætti. Vonandi verður þetta til þess að fólk fái að vita hvað það þarf að fást við á næstunni. Það er eðlileg krafa okkar þegna landsins að við fáum að vita hvað er í spilunum.

Stjórn míns gamla góða félags Samfylkingarfélagsins í Reykjavík skorar nú á stjórnvöld að boða til kosninga sem allra fyrst eftir áramót í ályktun sem gerð var í gær. Til hamingju með þetta Samfylkingarfólk í Reykjavík, þetta eru góð vinnubrögð.

Gangi ykkur allt í haginn í dag!


mbl.is Lengi getur vont versnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband