Eittþúsundþúsundmilljónir....

Einn milljarður inniheldur þúsund milljónir, rétt að minna á það reglulega. Það er orðið svo hversdagslegt að tala um milljarð, það kippir sér enginn upp við það að eiga eða skulda eins og einn milljarð en það er öllu meira eða verra að eiga eða skulda eittþúsundmilljónir.

Þá er Davíð kominn í geimið, saklaus eins og gaukur og botnar ekki neitt í neinu, hann má nú reyndar eiga það blessaður, að hann tók fjögurhundruð þúsund kall út úr gamla Kaupþing á sínum tíma í vandlætingu yfir kjörum stjórnenda bankans. Það að einhver einn aðili hafi getað skuldað bönkunum eittþúsundþúsundmilljónir er með ólíkindum en hverjir eiga að hafa eftirlit með bönkunum? Jú einmitt, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið, hvar voru þessar tvær stofnanir á undanförnum árum?

Gunnar Smári Egilsson minn gamli bekkjarbróðir missti sig í markaðssveiflunni og vatt sér í útrásina. Tapaði þar að sögn tuttuguogfjögurþúsundmilljónum en sagði síðan í viðtali hjá Agli Helga að hann hefði aldrei ætlað að fara að reka fyrirtæki hefði bara óvart orðið forstjóri og útrásarhönnuður. Smári sagðist hafa verið rosalega ánægður í blaðamannadjobbinu sem hann var í áður og botnaði bara ekkert í því hvernig hann lenti þarna. Í lok viðtalsins kom fram í máli Gunnars Smára að hann ætti einhvern smá pening eftir. Það væri forvitnilegt að vita hvað ''smá'' er í hugum gamla róttæklingsins.

Þeir ættu kannski að splæsa saman í sameiginlega varnarbaráttu gömlu andstæðingarnir Davíð og Gunnar Smári. Þeir geta allavega notað samskonar stragedíu.

Geir Haarde var spurður að því á blaðamannafundinum í gær hvort honum fyndist ekki rétt að gera eitthvað í málum ráðuneytisstjórans góða sem seldi hlut sinn í Landsbankanum eftir að hafa setið neyðarfund um bankann í London og hagnaðist að sjálfsögðu verulega á því korter fyrir gjaldþrot. Nei, Geir hélt nú ekki, það ætti nú ekki að veitast að þessum sómamanni sem gert hefði hreint fyrir sínum dyrum. Þetta er semsagt aðferðin sem á að nota, gæðingarnir munu ganga frá öllu saman saklausir eins og gaukar og munu síðan einkavæða bankana og byrja á nýrri rjómafleytingu eins hratt og auðið er.. Þetta er björguleg byrjun á uppgjöri, stjórnvöld verja spillinguna og standa að henni jafnframt.

það er ekkert traust sem hægt er að bera til þessa fólks lengur, með slíkum hætti kemur það fram núna þegar ljóst er að almenningur á að borga brúsann þeirra. Ingibjörg Sólrún varði í gær hagsmuni þess að láta vístölutryggðu lánin éta upp íbúðahúsnæði í landinu. Sagði að það yrði að hugsa um hagsmuni íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna. Það sem ég ekki skil, er það, hvernig í ósköpunum er hægt að leggja það saman að verðtryggingin eins og hún er hönnuð eigi að halda í stuttu fyrirséðu verðbólguskoti eins og nú er framundan. Það er ekkert sem segir að það sé eðlilegt, réttast væri að festa vísitöluna í ákveðnu millistigi á meðan þetta gengur yfir, það væri þá eitthvað bjargræði fólgið í því fyrir fjölskyldurnar í landinu. Fólk gæti þá hugsanlega haldið litlum hlut í eignum sínum. Eins og staðan er nú þá er stærsta rán Íslandssögunnar ný afstaðið og annað enn stærra farið af stað. Nú ætla stjórnvöld að ræna eignum almennings í landinu með óbilgjarnari hætti en áður hefur heyrst af.

Guð gefi ykkur öllum góðan dag! 


mbl.is Skuldar þúsund milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband