Færsluflokkur: Bloggar

Sjitt

Krónan er ónýt. Skuldir sem Íslenska ríkið þarf að standa undir eru hrikalegar. Rússalánið dugir ekki jafnvel þó að það fáist. Við eigum enga kosti aðra en að fá strax aðstoð frá alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Hvað þýðir þetta?

Aðalmálið eru skilyrði gjaldeyrissjóðsins. Þeir munu ekki fara fram á aðgerðir hér eins og í þriðja heims ríki. Við erum með fínan infrastrúktúr, litla pólitíska spillingu (skv. öllum stöðlum) og háþróað samfélag almennt. Þannig að sjóðurinn mun ekki senda hér inn her manna til að taka yfir ráðuneyti og stofnanir. Sjóðurinn mun örugglega gera kröfur um hátt vaxtastig og þar með hægari styrkingu krónunnar. Af hverju?

Til að tryggja það að fjármunir verði ekki fluttir úr landi í stórum stíl. Og hvað þá? Jú, það leiðir í aukið atvinnuleysi og mikla verðbólgu. Við gætum verið að horfa á endurtekningu á tímabilinu 1982-1984 þegar eignir unga fólksins brunnu upp á skömmum tíma. Tugprósentu verðbólga gæti orðið staðreynd. Afleiðingarnar yrðu miklu verri núna þar sem mun stærra hlutfall þjóðarinnar er með húsnæðislán verðtryggð í dag. Ég ætla ekki að auka á ÁHYGGJUR manna með því að reikna eitt eða neitt út, það getur hver gert fyrir sig. Hugsanlega er það eina skynsamlega í stöðunni að hætta að borga af lánum og leyfa lánadrottnum að hirða draslið...

Okkar sterkasta leið er að gefa yfirlýsingu um að við ætlum að sækja um aðild að EB. Umsóknarferillinn tæki sennilega stuttan tíma og við kæmumst tiltölulega fljótt í skjól EB.

Gangi ykkur allt í haginn.


Terroristar

Hin nýja ógn í norðri. Ísland, land terroristanna eða Viðskiptajötnanna sem engar vestrænar þjóðir vilja verða fyrir barðinu á. Ekki það að menn hafa svo sem talað um markaðina sem hina augljósu leið hryðjuverkamanna dagsins í dag. Þetta er ekkert flókið, með því að dæla inn ódýru fjármagni til handa Viðskiptajötnunum í norðri sem með peninginn í höndunum geta sett þjóðfélög á hausinn eins og ekkert sé. þá verður alger óþarfi að vera að beita hefðbundnum hernaði eða sprengingum. Brilliant því peningar eru sennilega eitt af því sem Obama & co eiga nóg af. 

Mér skilst að það séu myndir af glæsifleyi Jóns Ásgeirs í nýju hefti flottasta skútutímaritsins Yacht. Það er víst sérstaklega tekið til þess að fleyið er málað í sama lit og þota þeirra hjóna. Algert lykilatriði að sjálfsögðu. Enda þau bæði sögð sérlega smekkleg. Það væri áhugavert að skoða gestalista skútunnar, skildi hann innihalda nöfn helstu Viðskiptajötnanna eða ætli það séu fleiri þar sem ekki vilja láta nafns síns getið. 

Ég áttaði mig á því í morgun að ég hef sennilega grætt allavega þrjár milljónir á blankheitunum. Það er nefnilega sennilegt að ef ég hefði átt pening fyrir einhverjum misserum þá hefði ég örugglega keypt hlutafé í bönkunum. Ekki fyrir háar upphæðir en örugglega fyrir milljón í hverjum. Þar sem mér bar gæfa til að vera blankur þá keypti ég ekkert í bönkunum og þar sem ég átti ekkert þar við hrunið get ég fært mér þessar milljónir til tekna. Ég tapaði þeim í það minnsta ekki. Vona bara að skatturinn komist ekki í málið....


Gósenlönd

Ég var í Grikklandi um daginn. Að vinna. Var fararstjóri í ferð til Pelíon skagans með 18 manna hóp. Skemmtilegt fólk og yndislegt. Evran var ansi há þegar lagt var í hann, komin í 140 krónur stykkið og ég fann á fólki að það beit í. Evran skipti samt litlu máli í ferðinni enda vorum við í ferð sem snerist um göngur í fjallendi en ekki verslun. Við gengum daglega í fallegum fjöllum, yfirleitt umkringd gróðri og stórkostlegu útsýni. Veðrið var með ágætum og ekkert útlit fyrir það stórviðri sem nú er skollið á. Og bara til að benda ykkur á það, svona ef evran skildi nú lækka aftur og við ekki fara alveg á hausinn, þá eru Grikkir alveg frábærir í eldhúsinu og gestrisnir svo af ber. Grísk matargerð gefur því besta á því sviði ekkert eftir. Fyrir nú utan það að landið er svo þrungið af sögu og menningu að það er engu öðru líkt.

Það er nóg til af öllu. Of fáir sem eiga það í dag, en samt, nóg til.  Í hlíðum fjallanna á Pelíon skaganum bókstaflega féll maturinn ofan á mann. Allsstaðar ávextir á trjám, epli, appelsínur, vínber, plómur, hnetur ýmisskonar, ólívur og fullt af villibráð. Allt um kring er síðan Eyjahafið stútfullt af fiski. Allt í kringum landið okkar fallega, Ísland, er matarkista sem engu öðru er lík. Forðabúr sem er svo mikils virði að það eitt dugir okkur íslendingum til lífs í langan tíma. Sama er að segja um nánast allt svið þessarar yndislegu jarðar okkar, allsstaðar eru matarbúr og auðlindir en því miður þá eru örfáir sem telja sig eiga allt.

Síðan er eitt,  -hvert fóru allir peningarnir? Ekki hafa þeir gufað upp eða hvað? 

Auðvitað er það alveg ljóst að Viðskiptajötnarnir fóru mikinn en að þeir hafi getað klárað forðabúr þjóðarinnar á núll einni eins og sagt er er með ólíkindum. Hvað klikkaði, því verður alveg örugglega svarað og við munum girða fyrir það að svona ósköp geti átt sér stað að nýju. Hins vegar er algerlega óásættanlegt að þeir sem ollu okkur þessum ósköpum séu stikkfrí einhversstaðar í útlöndum þangað sem þeir flugu á þotunum sínum. Algerlega óásættanlegt.

Hvað ætlum við að gera í málum Viðskiptajötnanna, ætlum við að beygja okkur og bugta á meðan að þeir pakka saman sjóðum sínum og hverfa til eigna sinna í öðrum veruleika en við hin búum við? Bretarnir settu hryðjuverkalög á Landsbankann. Við hljótum að hafa einhver úrræði til að setja Viðskiptajötnana á sama stall og okkur hin. Auðvitað eigum við að taka af þeim það sem þeir hafa, þjóðnýta auðæfin og setja þau í hringiðu kreppunnar. Við getum notað allt núna. Stærstu Viðskiptajötnar Íslands eru í hópi ríkustu manna heims og halda að þeir geti verið það áfram. Þetta þarf að stöðva strax! 

 


Eru ekki allir í stuði

Ég keyrði fram hjá Landsbankanum í Austurstræti áðan, blaðamenn norpuðu í öllum hornum. Blaðamenn eða ættum við kannski að kalla þá stríðsfréttaritara. Einn stríðsfréttaritarinn og myndatökumaður hans voru búnir að króa af þjóðþekktan lögfræðing í viðtal, aðrir virtust ekki vera að gera neitt, fikta í snúrum, munda myndavélar og bíða. Vona bara að þeir þurfi ekki að bíða of lengi, það er svo erfitt fyrir sálina.

Blaðamannafundinum sem átti að vera klukkan ellefu í Iðnó hefur verið frestað til klukkan fjögur. Ég er hálf feginn, þarf eiginlega að fara að vinna.

Við erum öll búin að vera í hálfgerðum heljargreipum fréttanna í stríðinu. Vinur minn er rafvirkjameistari, hann hefur ekkert getað unnið síðan á mánudag, hefur verið önnum kafinn við að fylgjast með málum málanna. Síðan lítur allt út fyrir nýtt þorskastríð við breta. Er annars ekki örugglega ennþá mynd af þorski á krónunni góðu. Geir svarar fyrir sig með fingrinum og ég held bara að við séum sátt. Af hverju í ósköpunum ættum við líka að vera að standa skil á skuldbindingum óreiðumanna eins og Davíð Oddson kallar þá.

Vona bara innilega að okkur beri gæfa til að hengja ekki bakara fyrir smið.


Frelsið

Yndislegt þegar maður hugsar til þess hvað frelsið er magnað, sérstaklega þegar ekki þarf að taka tillit til ábyrgðarinnar sem fylgir frelsinu. Getur verið að það hafi bara einfaldlega gleymst að kenna viðskiptajötnunum að þannig gerðust hlutirnir á eyrinni. Það er; -engin ábyrgð, -ekkert frelsi.

Össur sagði í viðtali í dag að kanarnir hefðu rétt upp ákveðinn fingur þegar við báðum þá um aðstoð. Geir sagði við erlenda blaðamenn að vinir íslendinga hefðu ekki verið til staðar þegar á reyndi og því hefðum við fundið okkur nýja vini.

Kannski hafa gömlu vinirnir okkar á tilfinningunni að við séum enn í frelsinu en ekki farnir að virkja ábyrgðina og þess vegna vilja þeir ekki vera vinir okkar þegar okkur vantar aur. Sem betur fer er forsætisráðherrann vel tengdur ættarböndum til Noregs og frændur okkar og bræður þar til í að taka á vandamálunum með okkur.

Rússarnir koma var kallað út um allt í ''den tid, de dage'' og heimsbyggðin var á hliðinni út af Rússagrýlu. Við Íslendingar erum búnir að vera að hamast í þeim út af yfirflugi yfir lofthelgi Íslands undanfarið og menn hafa verið að tala um nýtt kalt stríð.

Við Íslendingar getum verið glöð og hamingjusöm í dag því það virðist vera að við séum búin að eignast nýja vini. Eftir að flestir vinir okkar og nábúar virðast hafa gefið okkur fingurinn eða allavega ekki svarað símanum þegar við reyndum að ná í þá.

Í byrjun vikunnar eða kannski í dúr við Grétar Þorsteinsson þann mæta mann; -í byrjun nýs lífs þjóðarinnar, nýs raunveruleika efnahags Íslensku þjóðarinnar er óhætt að segja að ríkisstjórnin öll hafi staðið sig með miklum sóma. Ég saknaði þess að hafa ekki Ingibjörgu Sólrúnu í orrahríðinni við hliðina á Össuri, Björgvin og Jóhönnu.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband