Útflutningur

Ég var að spjalla við ungan mann vel menntaðan núna um daginn. Hann og sambýliskonan keyptu sér íbúð í fyrra, lánin voru tekin í erlendri mynt. Hann hafði engar sérstakar áhyggjur af þessu, sagði að þau hefði alltaf gert ráð fyrir að gengið gæti versnað, kannski ekki svona, en samt. Síðan bætti hann við, 'ef allt fer í kaldakol hérna heima þá förum við bara út og vinnum þar, borgum af láninu og athugum með að leigja íbúðina'.

Þetta er kannski áhyggjuefni, unga fólkið sem upp til hópa er með góða alþjóðlega menntun, það fer kannski bara rétt á meðan það versta gengur yfir. Kemur kannski aftur, kannski ekki. Sagan segir að nú sé auglýst eftir Íslenskum iðnaðarmönnum í nágrannalöndunum.

Þá erum við komin að kjarna málsins. Við búum í nýju alþjóðlegu umhverfi, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Fólk fer og kemur, við þurfum ekki að hafa fyrir því að fá sérstök landvistar eða atvinnuleyfi í Evrópulöndunum, getum einfaldlega komið og farið víðast hvar, unnið eða lært, gert það sama og aðrir íbúar viðkomandi landa. Þennan raunveruleika hefur ungt fólk á Íslandi alist upp við. Og þá kemur að því - verðum við ekki að fara Pólsku leiðina. Nú þegar það blasir við að það sem við eigum mest af á næstunni er atvinnuleysi, er það þá ekki hagkvæmasta leiðin okkar að flytja atvinnuleysið út til annarra landa. Það er þá loksins kominn flötur á arðbærum útflutningi og við þurfum ekkert að hafa áhyggjur að gjaldeyrinum því hann er enginn í þessu tilfelli. 

Guð gefi öllum góðan dag.


mbl.is Möguleiki á landflótta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Richter

Sæll Fritz.  Ég held ég þekki líka þennan unga yndislega mann svo ég tali nú ekki um sambýliskonuna.  Ég einmitt talaði við ungu konuna um daginn.  Þau eru eins og margt af unga fólkinu okkar, vel menntuð hvort á sínu sviði og geta farið hvert sem er og unnið hvar sem er.  Ég er svo hreykin af þessu unga fólki og öllu unga fólkinu okkar.  Ef þau þurfa, þá fara þau af landi brott, því miður, en fólk verður að vera þar sem atvinnan er.  Því tel ég að aðaláherslan okkar hérna sé að halda atvinnu í landinu, búa til verðmæti með okkar eigin vinnu.  Í öllu fárinu undanfarin ár höfum við verið að skreyta okkur með stolnum fjöðrum en núna er komið að skuldadögunum og þá stendur allt og fellur með því að koma hjólum atvinnulífsins í gang aftur og að allir hafi atvinnu.

María Richter, 31.10.2008 kl. 11:41

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Langamma fór árið 1911 og kom ekkert aftur.  Hún fór líka mjög langt, alla leið til Seattle.

Frændi minn fór 1998, ef ég man rétt, eða '99.  Hann er ekkert á leiðinni til baka.

Ásgrímur Hartmannsson, 31.10.2008 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband