8.11.2008 | 16:58
Hiti í mannskapnum
Egg, jógúrt og skyr dundu á framhlið Alþingishússins. Ég eins og svo margir aðrir lagði leið mína á Austurvöllinn núna í dag til að taka þar þátt í friðsömum mótmælum. Það er mikill hiti í fólki, mikil óvissa og það fór ekki á milli mála að það er örstutt í slagsmál í Reykjavík.
Lögreglan með Geir Jón í fararbroddi virtist hafa stjórn á sínum mönnum, lögreglan virtist þó vera fáliðuð og þurfti nokkrum sinnum að hörfa undan mannfjöldanum. Ég held að ég hafi aldrei upplifað svona sterka undiröldu óánægju hjá fjölda fólks af öllum toga eins og í dag. Það mátti engu muna að upp úr syði.
Á þessum skelfilegu tímum verða Íslensk stjórnvöld að hysja upp um sig brækurnar og taka ábyrgð, sýna þjóðinni þá virðinga að upplýsa um stöðu mála. Sýna þjóðinni þá virðingu að taka til í bankakerfinu og láta þá sem tóku þátt í sukkinu fara. Nánast allir stjórnendur gömlu óreiðufyrirtækjanna eru að vinna sem ráðgjafar hjá skilanefndum við að rannsaka sjálfa sig. þetta gengur ekki lengur, stjórnvöld verða að skipta strax um í brúnni. Ríkisstjórnin verður að axla ábyrgð og það strax. Treysti þeir sér ekki til þess er eina leiðin að mynda þjóðstjórn, rjúfa þign og boða til kosninga nú þegar.
Guð blessi alla Íslendinga!
Eggjum kastað í Alþingishúsið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta eru helvítis aumingjar og níðingar svo að koma svona fram Fritz. Þeir sem kasta eggjum og gera aðsúg að lögreglunni eru ekki á réttri braut! Ég held að það sé ekki það gáfulegasta að rjúfa þing og boða til kosninga núna. Það þarf styrka stjórn til þess að halda á málum og sú stjórn verður að vera með þingmeirihluta á bakvið sig. Ekki viltu nýja áhöfn á skútuna í miðju hafinu? Ég get tekið undir þau sjónarmið að menn verða að gera upp við sig hvernig þeir ráðstafa sínu atkvæði þegar mönnum rennur reiðin.
Í Sviss hefði lögreglan aldrei liðið slíka uppákomu.
Lifðu heill gamli vin.
Mummi
Guðmundur Helgi Þorsteinsson, 8.11.2008 kl. 17:11
Þakka þér fyrir heiðarlega lýsingu af ástandinu í miðbænum.
Axel Þór Kolbeinsson, 8.11.2008 kl. 17:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.