Færsluflokkur: Bloggar

Bláa höndin og guli hanskinn

Enn og aftur verð ég að minna á Glæpafélagið Gula hanskann í bókinni um Afa ullarsokk og það hvort ekki sé hægt að koma Bláu höndinni fyrir í gula hanskanum. Annars finn ég til með Davíð, ég vorkenni honum. Hann er eins og kjáni í fylgd lífvarða og lögregluþjóna og hótar síðan að verði hann skammaður þá fari hann í pólitík aftur. Nei Davíð allt nema það, ekki fara í pólitík aftur gerðu það....

Annars kom mér að óvart að heyra í fréttunum að það er til fólk sem myndi kjósa blessaðan hanskann aftur. Kannski hann bjóði sig fram til formanns aftur núna þegar Íhaldið heldur landsfund. 

 


mbl.is Miserfitt að hætta í pólitík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju með þetta skref

Áætlun ríkisstjórnarinnar um bætt rekstrarumhverfi fyrirtækja í landinu er góð. Mér virðist í öllu óðagotinu sem við höfum orðið vitni að undanfarið sé hér loks að fæðast áætlun sem er ígrunduð og í öllum grunnatriðum vel útfærð. Til hamingju með þetta skref, svo ég noti nú enn einu sinni góða setningu Þorgerðar Katrínar, Guð láti á gott vita.

Þá er komið að því sem skiptir máli, við venjulegt fólk í þessu góða landi gerum kröfur um að fá leiðréttingu á okkar kjörum. Við viljum að þeir sem eiga að borga, borgi. Við erum ekki í þeim hópi sem á að borga allan brúsann. Við erum ekki til í að borga skuldir óreiðumanna með íbúðum okkar og absúrd vísitölu á lánum sem leggst ofan á höfuðstól skynsamlegra lána hjá skynsamlegu fólki. Nei takk.

Fyrst að hægt er að gera svo skynsamlega áætlun til bjargar fyrirtækjum í landinu þá er hægt að gera skynsamlega áætlun til bjargar heimilum í landinu. Og bara svona til að minna á það: Fólk er ekki fífl.........

Góðar stundir

 


mbl.is Bjarga á fyrirtækjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blessaðir aumingjarnir

Já, ekki veitir af ölmusunni til blessaðra aumingjanna. Íslendingar eru ekki matvinnungar í augnablikinu, samt eru allir að gera sitt besta. Forsætisráðherra minnir á að við munum eftir vinaþjóðum okkar í hótunartón. þúsund manns fara á Arnarhól og mótmæla, fólk hendir eggjum í Seðlabankann. Allt þetta og miklu meira á fullveldisdaginn, annan dag Aðventu.

Og já, meðan ég man, fólk er ekki fífl.

Gangi ykkur vel.


mbl.is Söfnun í Vesturheimi til styrktar Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndisleg orðatiltæki bláu handarinnar

Yndislega tekið til orða hjá Bláu höndinni, ''tímabundin temprun á útflæði gjaldeyris''.. Sannarlega skáldaleyfi í fullu gildi Þarna. Þetta ágæta orðatiltæki BH minnir mig stundum á það þegar ég var beðinn um að aðstoða unga vel gefna stúlku í tíunda bekk sem var í smávandræðum í stærðfræði. Þegar til kom var hún með hlutina ágætlega á hreinu, hún skildi ekki nokkur einkennileg hugtök eins og til dæmis samlagningarandhverfa (frádráttur, mínus), lái henni hver sem er.  

Ég vona innilega að stjórnvöld og embættismenn reyni ekki að fela aðgerðir á bak við skrúð eða furðumælgi. Svo ég segi það einu sinni enn þá er fólk ekki fífl og það er alveg eins með okkur fullorðna fólkið og börnin það er best að segja okkur bara eins og er...

Góða helgi..


mbl.is Hömlum aflétt og nýjar settar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snúum bökum saman

Elskurnar mínar hafið engar áhyggjur af þessu, þetta er bara byrjunin. Við eigum eftir að sjá hann miklu svartari en þetta hvað varðar atvinnulíf og útflutning. Biðjum þess að þetta verði ekki til þess að sterk og góð félög fari með sína starfsemi úr landi. Hömlur eru ekki góðar en nauðsynlegar ef að menn geta ekki axlað ábyrgðina sem fylgir frelsi til athafna. Fyrir okkur sem erum ákveðin í að gefa ekkert eftir og þreyja þorrann er bara eitt að gera, snúum bökum saman, ef að við stöndum sameinuð þá komumst við í gegnum allt, alltaf.

Ég er einn af þeim sem er ákveðinn í því að ég ætla að hafa búsetu á Íslandi og til þess að það verði hægt þá þarf að fara í gegnum þetta öldurót. Gleymum samt aldrei að við þurfum að komast til botns í öllu. Hengjum ekki bakara fyrir smið, en finnum út úr öllum hlutum. Opnum aðgengi almennings að öllum gögnum sem rannsóknarnefndir fara yfir, með því móti tryggjum við að enginn getur skotið neinu undan.

Gangi ykkur vel..


mbl.is Engum getur litist á þetta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áttuð þið virkilega von á því að hann myndi mæta?

Ekki átti ég von á því að hann myndi mæta blessaður, ekki getur hann sleppt bláu höndinni af öllum IMF dollara milljörðunum sem hann liggur á núna. Þar fyrir utan er það auðvitað langt neðan við virðingu Bláu handarinnar að mæta fyrir viðskiptanefnd Alþingis. Hvílík niðurlæging fyrir Aðal. Ég kom með tillögu í haust sem ég ætla að rifja upp núna. Kristján vinur minn Hreinsson skáld í Skerjafirði er með nýja bók um Afa Ullarsokk í ár sem heitir: Glæpafélagið guli hanskinn, ég er viss um að það mætti semja um það við Kristján að koma Bláu höndinni fyrir í Gula hanskanum og þar með væri málið endanlega afgreitt.

 Hafið það öll sem allra best í dag! 


mbl.is Davíð frestar komu sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seint koma sumir

Seint koma sumir en koma þó, það verður vonandi vel valið í þessa nefnd. Ég sakna þess að ekki sé talað um óháða aðila í þessari nefnd. Mestar áhyggjur heyri ég að menn hafa af því að sá grunaði verði fenginn til að rannsaka sjálfan sig, ég tek undir þetta. Síðan þarf að bretta upp ermar og stofna til frekari rannsóknarnefnda.

Það er mikilvægt að jafnhliða þessu verði opnað fyrir aðgengi almennings, t.d. blaðamanna, sagnfræðinga og fleiri að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að þeim gögnum er nefndirnar hafa undir höndum.Með því móti er tryggt að enginn geti úðað lyktareyði þar sem hann á ekki heima. Þannig tryggjum við rannsóknarnefndunum það aðhald sem þær verða að hafa eigi trúverðugleiki þeirra að vera einhver.    

Ég vona að Guð láti á gott vita og að hér sé stigið fyrsta skrefið í þá átt að finna út úr hörmungunum sem skella á þjóðinni.


mbl.is Rannsóknarfrumvarpi dreift
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurstaðan eftir IMF

Niðurstaðan er þá eftirfarandi: Eftir tvö ár á almenningur ekki neitt. Þeir ríku verða ríkari (geta keypt eignir almennings eða yfirtekið þær á tombólu eftir eitt eða tvö ár. Fimmtán til tuttugu þúsund manns verða atvinnulausir (eða þá fluttir úr landi) sem mun hafa bein áhrif áhrif á fjörutíu til sextíu þúsund Íslendinga. Fyrir þá sem hafa áfram vinnu verður þetta líka basl þar sem kaupmáttur mun lækka og aðgangur að lánsfé verður enginn. Fyrirtækin í landinu verða í miklum vandræðum. 

Eftir móðuharðindin forðum daga stóð til að flytja þessa vesælu þjóð úr landi, flytja vesalingana til Jótlands eða eitthvað álíka. Kannski við ættum að athuga hvort IMF hafi ráð til að koma okkur fyrir einhversstaðar þar sem við getum unnið fyrir okkur.

Guð blessi ísland og fólkið í landinu!


mbl.is Hið fullkomna fárviðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólgubál

Nú er rétt að draga andann djúpt og undirbúa það að fara undir yfirborðið í einhvern tíma. 17,1% verðbólga er gríðarhá og ekki má gleyma vaxtastiginu sem er enn hærra eða 18%. Þessar tölur ásamt lækkun á húsnæðisverði gera útliðið ekki gott fyrir almenning. En það versta er eftir nú fer krónan að sigla á flot og þá munum við sjá verðbólguna gjósa upp á við. Vonandi bara í stuttan tíma.

Það furðulega við þetta er, að jafnvel þótt verðbólgan skjótist stutt hátt upp, þá leggst álagið strax á lánin okkar og fer ekki þaðan aftur. Þeir sem hafa lánað til íbúðakaupa græða stórt í svona árferði, almenningur tapar stórt. Það eru aldrei gerðar neinar leiðréttingar og því mun fara sem fer að öllu óbreyttu. Almenningur verður að fá leiðréttingu á kjörum annars er hætt við því að tjónið verði algert, bæði hjá almenningi og stjórnvöldum.

Gangi ykkur vel í dag.  


mbl.is Verðbólgan nú 17,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sunnudagsbíltúrar

Nú verður bara að taka upp sunnudagsbíltúra að nýju. Farinn verður svokallaður auðmannarúntur, ekið á milli húsa vikinganna sem eru að sjálfsögðu hvert öðru glæsilegra enda þurfa þeir í sínum blankheitum ekki að hafa áhyggjur af vísitölutryggingu á lánum. Blankheitin og stressið á þessum bæjum snúast örugglega um það hvernig í ósköpunum blessað fólkið ætli að fara að og kannski bara með nokkur hundruð milljónir á lausu. Skemmtilegur leikur á auðmannarúntinum væri að fjölskyldan gæti reynt að geta sér til um það hvernig bílar væru í næstu auðjöfurs innkeyrslu.


mbl.is Yfirlýsing frá Jóni Ásgeiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband