Færsluflokkur: Bloggar

Slagur

Það verður athyglisvert að fylgjast með Kompás í kvöld, Björgólfur Thor virðist reiður miðað við það sem sýnt hefur verið úr þættinum. Seðlabankinn hefur nú þegar kommenterað á strákinn og segja menn á þeim bænum hann einfaldlega fara með rangt mál og vitna þar meðal annars í dagsett bréf sem inniheldur röksemdir fyrir lánsbeiðni Landsbankans.  

Hefði haldið að spunameistari Björgólfs Thor, gamall flokksbróðir minn og mikill sómapiltur, Ásgeir Friðgeirsson, gæti hamið sína menn. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta er sett upp í Kompás. Held að ef Ásgeir hefur lagt upp með reiði leiðina í þættinum þá sé það röng ákvörðun.

Úr því sem komið er þá er kannski bara gott að fá smá fútt í þetta, það verður þá tilbreyting frá kreppumóðnum að fá smá slag. Spurning hvort að það muni þá ekki halla á Seðlabankann þar sem mótaðilinn á alla fjölmiðla í landinu.....

Guð blessi ykkur öll...


mbl.is Seðlabanki andmælir Björgólfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bruni

Vonum og biðjum að verðbólgan taki ekki á rás eins og útlit er fyrir. Lítil saga: Við Vaka keyptum okkur okkar fyrstu íbúð árið 1982, kornung og rennblaut bakvið eyrun. Vaka átti móðurarf og síðan höfðum við sparað smá, þannig að við áttum meira en helming af verði íbúðarinnar þegar hún var keypt. Við ákváðum í samráði við fasteignasala og okkar ráðgjafa að velja verðtryggð lán sem voru mun hagkvæmari en óverðtryggð. Þegar þetta var þá var verðbólga undir 10% og svo sem ekkert útlit fyrir að hún færi á flug, blessunin.

Til að gera langa sögu stutta þá fór blessuð verðbólgan á mikið flug næstu mánuði og ár eftir að við keyptum íbúðina. Þega okkur tókst að selja íbúðina árið 1988 þá þurftum við að taka með okkur áhvílandi lán á íbúðinni enda stóð markaðsverð hennar ekki lengur undir nema hluta lánanna sem á henni hvíldu. Við vorum heppin, fengum lánað veð hjá foreldrum og gátum tekið lífeyrissjóðslán til 20 ára með viðunandi kjörum og gátum því skuldbreytt hluta af lánunum sem við þurftum að taka með okkur með þessum hætti.

Lífið hélt áfram og við eignuðumst aftur íbúð, verðbógulánið góða fylgdi okkur, stundum í skilum, stundum ekki en alltaf var nú greitt af því að lokum. Fyrir nokkrum árum gátum við tekið lánið af húsnæði foreldra minna og flutt á húsið okkar.  Ég ætla ekki að leggja ykkur í þunglyndi með því að segja ykkur hvað ég hef borgað mikið af þessu láni í þessi ár eða hvað verðbólguskot níunda áratugarins hefur kostað okkur.

Við greiddum síðustu afborgun af verðbólguláninu okkar núna í lok september. Ég hef alltaf verið sannfærður um að ég myndi ekki lenda í þessari stöðu aftur. Ég trúi því enn, en það lítur ekki of vel út í augnablikinu. Við höfum ekki á neinn hátt tekið þátt í fjörinu undanfarin ár, allt verið með felldu á þessu heimili, engin verðbréf, engin hlutabréf og litlir sjóðir að spila úr. En það hvílir svona tæpur helmingur af markaðverði hússins á því, ekkert voðalegt í dag en guð minn góður, ef svo heldur sem horfir, hvernig verður það á morgun......

Guð gefi ykkur góðan dag.


mbl.is Verðbólgan nú 15,9%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðalkrónan hvað?

Ef að það lá ljóst fyrir allan tímann hvert vandamálið var, hvað er þá málið.  Af hverju var ekki unnið samkvæmt því. Krónan hvað, auðvitað vita allir sem það vilja vita að krónan hefur verið handónýtur gjaldmiðill í langan tíma og gengi hennar oftast rangfært. Auðvitað er það flestum ljóst að Evrópubandalagið og Evra er það eina sem mun virka fyrir efnahag okkar smáu þjóðar. En þetta réttlætir samt ekki óráðssíðu undanfarinna ára.

Hvað varð til þess að forsvarsmenn Landsbankans heitins ákváðu að stofna Icesave reikningana í Bretlandi og bjóða hærri vexti en aðrir gátu boðið? Hvernig er hægt að skýra slíkt ráðslag með ónýtri eðalkrónu?  Getur verið að forsvarsmenn Landsbankans hafi einfaldlega ákveðið að ná sér í fjármagn með þessum hætti þar sem aðrar leiðir voru lokaðar? Var þá ekki eina leiðin að stofna innlánsreikninga sem báru ofurvexti sem aðrar innlánsstofnanir í Bretlandi gátu ekki jafnað? Og var þá ekki ljóst allan tímann að líkur til að fjáreigendur fengju fé sitt til baka með réttum rentum væru litlar? Hvað með ráðslag forsvarsmanna bankanna þegar þeir á þessu ári negldu gengi krónunnar niður til að reyna að rétta sinn hag á pappírunum? Svona væri hægt að telja áfram lengi dags!

Krónan hvað - við erum ekki algerir asnar!

Guð gefi okkur öllum góða helgi.


mbl.is Krónan stærsta vandamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðferði

Hér virðist það vera að gerast sem svo margir í kringum mig hafa óttast. það virðist vera rétt sem sagt hefur verið að siðferði manna eins og Björgólfs Thors er sennilega á mjög lágu plani. Hann hefur greinilega ekki erft heilindi föður síns. Séu þessar fréttir sannar að Björgólfur Thor Björgólfsson sé að kaupa sínar gömlu eignir í Landsbankanum í Bretlandi í gegnum Straum þvert á vilja ríkisstjórnar Íslands eru það gríðarleg vonbrigði. 

Þessi frétt er sorglegri en tárum tekur, sorglegt að heyra að einn af stóru útrásarvíkingunum sé kominn í lið með Bretum sem hafa nánast líst yfir stríði við Ísland. Sorglegt fyrir það að flestir stóðu í þeirri meiningu að þeir Björgólfur væru í skásta flokki siðferðisins.

Bresk blöð taka taum Íslendinga í morgun eftir að hafa fengið í hendur útskrift á samtali þeirra Árna og Darlings, þar sem fram kemur að Darling virðist hafa farið ansi fjálslega í túlkunum sínum. Síðan virðist allt vera að hrynja allsstaðar í kringum okkur í þessum furðulega efnahagsheimi okkar, það skyldi þá aldrei vera að Bretar þyrftu að deila með okkur björgunarbátum.

Guð gefi ykkur góðan dag...


mbl.is Bretar selja eignir Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tölum mannamál við Bretana

Björgvin Sigurðsson kemur hreint fram, er heiðarlegur, blátt áfram og einn af okkar pottþéttustu stjórnmálamönnum. Darling þekki ég ekki neitt en miðað við framkomu hans er þar ekki merkilegur pappír á ferð. 

Held að það sé kominn tími til að við tölum mannamál við Bretana. Jón Daníelsson dósent við London School of Economics gagnrýndi peningastjórnunarmálin harðlega í kastljósi í gærkvöldi. Jón kom með þá góðu tillögu að við myndum tala við Bretana og láta þá vita nákvæmlega hvað við erum til í að gera og það að sjálfsögðu á opinberum vettvangi. Í fjölmiðlum. Segjum þeim að við séum til í að standa við lagalegar skuldbindingar okkar gagnvart innistæðum Breta í Íslenskum bönkum, ekki neitt umfram það, látum þá vita að við munum höfða mál gagnvart þeim vegna aðgerða þeirra gegn okkur, látum þá vita að við hvikum hvergi frá þessu.

Það er því miður ekki um annað að ræða en að taka undir orð Péturs Blöndal: Breta hafa sagt okkur stríð á hendur........


mbl.is Yfirlýsing viðskiptaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drottningin

Hekla er yndislegt fjall, hún felur oft á sér toppinn undir mjúku fallegu mistri. Stundum sýnir hún hann líka, fallegan en ljóslega hættulegan líka. Hlíðar hennar eru heitar á köflum. Hún er lifandi. Við persónugerum Íslensku eldfjöllin, stundum finnst mér engu líkara en Hekla sé raunveruleg drottning Íslenskra eldfjalla. Hún gýs á tíu ára fresti um þessar mundir og er búin að vera tilbúin í það verk í nokkurn tíma.

Ég hef tekið þátt í því að planta Birki á Rangárvöllum tengt átaki sem heitir Hekluskógar en markmiðið er að græða upp að nýju stærsta Birkiskóg á Íslandi sem var í nágrenni drottningarinnar, yndislegt og verðugt verkefni að klæða landið okkar í þjóðbúninginn sinn þar sem það á við. Ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga afdrep ekki langt frá drottningunni og ég get vitnað um það hér að þar er yndislegt að vera. Útsýni fallegast á Íslandi og náttúran með eindæmum.

Hekla mun alveg örugglega gjósa innan tíðar, það er ekkert sem getur stöðvað hana, hvorki efnahagsástand né annað ástand. Hekla heldur sínu striki, þegar hún gýs þá gýs hún. Við verðum að sýna drottningum virðingu, fara vel að þeim og gæta fyllstu varúðar og nærgætni í umgengni við þær. Hekla er þannig, við verðum að umgangast hana af þeirri virðingu og varfærni sem hún á skilið.

Förum varlega við Heklurætur, drottningin gerir ekki boð á undan sér. 


mbl.is Hekla getur gosið hvenær sem er
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhuggulegt

Sérfræðingur á vegum Sameinuðu Þjóðanna Martin Scheinin bendir á að aðgerðir breta gagnvart okkur sé dæmi um hvernig hægt sé að misnota lagasetningar.   

Scheinin tala um að Þetta sé vísbending um hættuna á því að menn misnoti aðgerðir eða lög sem sett eru til að verjast vá af einhverju tagi. Ef við þurfum að hafa áhyggjur af einhverju þá er það misnotkun af þessu tagi. Lög um varnir gegn hryðjuverkjum höfðu í lok tuttugustu aldar og byrjun þessarar verið lögð fram bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi en áttu ekki upp á pallborðið vegna þess hve gróflega misnotkun á réttindum fólks og þjóða þau voru talin geta boðið upp á. Eftir árásirnar á tvíburaturnana í New York 9 september 2001 kvað annan tón við þegar fylgismenn þessara laga gátu keyrt þau í gegn beggja vegna Atlantshafsála án mikillar mótstöðu.

Okkur Íslendingum ber skylda til að vekja enn frekar máls á því órétti sem við höfum verið beytt með notkun bresku hryðjuverkalaganna gegn okkur.  Forsætisráðherra sagði í Kastljósinu í gær að við myndum ekki láta kúga okkur. Höfum það að leyðarljósi, látum ekki kúga okkur.


mbl.is Gott dæmi um misnotkun laga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Banki Bláu handarinnar í svörtu björgum

Hvað skyldi verða um Bláu höndina, ég veit að Kristján Hreinsson, skáldið í Skerjafirði verður með nýja bók um Afa Ullarsokk núna fyrir jólin, skilst að hún heiti Glæpafélagið Guli Hanskinn, kannski hægt sé að rýma til fyrir Bláu höndinni í Gula hanskanum...

Bankinn sjálfur getur þá annaðhvort farið í hendurnar á skilanefnd eða í hendurnar á nýjum stjórnendum. Kannski er hægt að finna hæfan múrara eða jafnvel góðan trésmið í verkefnið. Ekki það að ég ætli að gera lítið úr fulltrúum annarra iðngreina sem vel kæmu til greina í djobbið. Nú síðan er ég viss um að rithöfundur eða jafnvel listmálari myndu sóma sér vel í bankanum í svörtu björgum. Listmálarinn gæti haft forgöngu um að breyta um lit á bankanum og rithöfundurinn væri flottur í að skrifa skuldabréf fyrir bankann..  


mbl.is Sátt um IMF-lán í Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryðjuverk

Undarlegir tímar sem við lifum á, það skyldi þá aldrei vera að Landsbankinn sé rétt skráður hjá bretunum. Nú er að koma yfir okkur holskefla af fólki sem leitað hefur til bankanna með erindi um skuldbreytingar vegna greiðsluerfiðleika skv. tilmælum ríkisstjórnarinnar til  bankanna sinna um að skuldbreyta og aðstoða fólk í kreppunni okkar góðu. Bankarnir hafa þá tekið upp á því að nota tækifærið til að hækka grunnvexti hjá sumum og öðrum er einfaldlega vísað frá þar sem þeir teljast víst ekki nógú góðir pappírar í augnablikinu....

Eru þetta hryðjuverk gagnvart fólkinu í landinu, hvað getur maður sagt, varla leitar einhver eftir kreppuskuldbreytingum nema þurfa á því að halda. Og ef fólk er í þeirri stöðu að þurfa á því að halda þá er það varla í mjög góðum málum.......... Guð minn góður ég vona að þetta sé ekki það sem koma skal. Vona að þetta sé ekki forsmekkurinn af samhjálpinni.

Nú síðan er alltaf hægt að feta í fótspor milljarðamæringanna, Jóns og Bjögga og Hannesar og allra hinna strákanna okkar. Það er að flýja bara úr landi með sitt. Það eru nokkrir staðir í veröldinni sem eru góðir fyrir Íslendinga t.d. norðurlöndin, Kanada, ég myndi nú ekki mæla með Bretlandi í augnablikinu ekki nema þá að fólk segðist vera frá t.d. Færeyjum þá gæti það gengið. Sennilega er Kanada best, þar er auðvelt að fá atvinnuleyfi og við erum með gamlar flóttamannabúðir í Gimli og Winnipeg sem má blása nýju lífi í.

Og svona að lokum þá verð ég að benda á að Bankastjórar nýju bankanna eru á sultarlaunum, eins og aðrir forstjórar ríkisfyrirtækja þá hafa þeir ekki nema ca. 1.950.000; eðalkrónur á mánuði. Vonum að þau fari ekki á hausinn blessað fólkið, þau geta þá alltaf sótt um kreppuskuldbreytingar hjá bönkunum.

LUV JÚ TÚ


mbl.is Landsbanki í slæmum félagsskap
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öflugt teymi

Það gleður kálfshjartað að sjá að Ingibjörg Sólrún og Össur, öflugasta teymi Íslenskra stjórnmála er komið á fulla ferð. Vonum heitt og innilega að málið verði afgreitt með eins miklum hraða og mögulegt er, það verður að draga úr eldunum utan landsteinanna hratt og örugglega. Úr þessu þá gerist það ekki fyrr en búið er að ganga frá láninu hjá IMF. Nú gengur engin linkind, það er einfaldlega ekki um annað að ræða en að riðja hindrunum úr vegi halda áfram fram á veginn.

 


mbl.is Krónan tifar á mjóum fótum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband