Færsluflokkur: Bloggar

Útflutningur

Ég var að spjalla við ungan mann vel menntaðan núna um daginn. Hann og sambýliskonan keyptu sér íbúð í fyrra, lánin voru tekin í erlendri mynt. Hann hafði engar sérstakar áhyggjur af þessu, sagði að þau hefði alltaf gert ráð fyrir að gengið gæti versnað, kannski ekki svona, en samt. Síðan bætti hann við, 'ef allt fer í kaldakol hérna heima þá förum við bara út og vinnum þar, borgum af láninu og athugum með að leigja íbúðina'.

Þetta er kannski áhyggjuefni, unga fólkið sem upp til hópa er með góða alþjóðlega menntun, það fer kannski bara rétt á meðan það versta gengur yfir. Kemur kannski aftur, kannski ekki. Sagan segir að nú sé auglýst eftir Íslenskum iðnaðarmönnum í nágrannalöndunum.

Þá erum við komin að kjarna málsins. Við búum í nýju alþjóðlegu umhverfi, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Fólk fer og kemur, við þurfum ekki að hafa fyrir því að fá sérstök landvistar eða atvinnuleyfi í Evrópulöndunum, getum einfaldlega komið og farið víðast hvar, unnið eða lært, gert það sama og aðrir íbúar viðkomandi landa. Þennan raunveruleika hefur ungt fólk á Íslandi alist upp við. Og þá kemur að því - verðum við ekki að fara Pólsku leiðina. Nú þegar það blasir við að það sem við eigum mest af á næstunni er atvinnuleysi, er það þá ekki hagkvæmasta leiðin okkar að flytja atvinnuleysið út til annarra landa. Það er þá loksins kominn flötur á arðbærum útflutningi og við þurfum ekkert að hafa áhyggjur að gjaldeyrinum því hann er enginn í þessu tilfelli. 

Guð gefi öllum góðan dag.


mbl.is Möguleiki á landflótta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram Ísland

Ísland 3, Írland 0. Loksins, loksins, loksins er aftur og enn á ný komið tækifæri til að vera stoltur og glaður Íslendingur, fá kökk í hálsinn af stolti og gleði. Hvílík hamingja. Laugardalsvöllurinn var frosinn, svellaður og erfiður en það hindraði stelpurnar ekki í því að spila frábæran fótbolta, þær Írsku áttu einfaldlega aldrei séns.

Ég var fyrr í dag algerlega ákveðin í því að skemmtiferðir til útlanda kæmu tæplega til greina á næstu misserum en nú er það breytt. Auðvitað drífum við okkur til Helsinki næsta sumar og vinnum Evrópumótið með stelpunum. Ef gengið verður ekki á almennilegu floti þá förum við bara í Krónuna til Kidda Skúla og byrgjum okkur upp af ódýrum og góðum mat og nestum okkur upp fyrir mótið..

Innilega til hamingju með árangurinn stúlkur, við erum öll stolt af ykkur!


mbl.is Ísland á EM 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Megi guð láta á gott vita..

Áfram Ingibjörg Sólrún. Þetta er málið við megum ekki hika, verðum að vera staðföst og trú því sem við stöndum fyrir. Við getum ekki setið aðgerðarlaus í ríkisstjórn á sama tíma og Seðlabankinn er rekinn með þeim hætti sem nú er. Við verðum að hafa fagfólk við stjórnvölinn og að sjálfsögðu eru ekki aðrir kostir í stöðunni en þeir að viðurkenna að peningamálastefna seðlabankans er komin í þrot. Forsætisráðherra talar um að ýta krónunni á flot um leið og hægt er, hann ætti kannski að semja við Acoa um myntsláttu, við munum öll hversu vel álkrónan flaut á vatni, því miður flaut hún ekki jafnvel á alþjóðamörkuðum þess tíma.

Sækjum um aðild að EB, það tekur um það bil 6 mánuði fyrir Ísland að fá jákvæða umsögn frá sambandinu. Að sjálfsögðu verður samið, sanngjarnt og eðlilega, um gengi krónunnar við inngöngu. Um leið og við höfum fengið jákvæða umsögn um aðildarviðræður þá getum við komið Íslensku eðalkrónunni í svo kallaðan ERMII gjaldmiðilsflokk hjá myntbandalagi Evrópu. Krónan væri þá komin í skjól sem þýðir að seðlabankar Evrópu myndu verja eðalkrónuna með ráðum og dáð, svipað og verið hefur með Dönsku krónuna.

Endurheimtum traust umheimsins og gerum það eina sem rétt er, virðum stjórnarsáttmálann og vinnum fyrir Íslensku þjóðina. Aðalmálið í dag er traustur gjaldmiðill og ábyrg fagleg stjórnun peningamála. Horfum á stöðuna eins og hún er og bregðumst við eins og þarf að gera. Þurfi að rjúfa þing og boða til kosninga til að ná þessu fram þá verður svo að vera. Það er skýr meirihluti þjóðarinnar sem vill sækja um aðild að EB, um leið og það hefur verið gert breytist allt. Áfram Solla!

Guð blessi ykkur öll!


mbl.is Vill endurskoða ESB og Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhæfni

Þegar kemur að rannsókn mála sem orðið haf til vegna efnahagshrunsins, hvort sem um er að ræða aðdraganda þess, innherjamál eða annað er getur tengst málum af þessu tagi, verða rannsóknaraðilar eða þeir er fjalla um málið að vera hafnir yfir allan vafa um hæfni sína.

Það er augljóst að ríkissaksóknarar hvorki Bogi Nilsson né Valtýr Sigurðsson eru hæfir til að rannsaka mál þar sem synir þeirra gætu hafa gegnt veigamiklu hlutverki. Það að Dómsmálaráðherra Björn Bjarnason skuli gefa þeim sjálfdæmi til ákvörðunar um eigin hæfni eða vanhæfni í þessu máli er algerlega óviðunandi. Þetta hefur ekkert með hæfni mannanna í starfi almennt að gera.

Það verður að setja afgerandi reglur um hvernig staðið verður að rannsókn og uppgjöri mála tengdum efnahagsfallinu. Þegar það hefur verið gert er tímabært að ráða menn til verksins. Sennilega er ekki annar möguleiki í stöðunni en að fá óháða rannsóknaraðila erlendis frá til verksins. Það er óásættanlegt að nokkur möguleiki geti verið á  áframhaldandi mismunum, svikum og tengslastarfsemi við rannsókn þessara mála.

Guð gefi ykkur öllum og Íslandi góðan dag! 


mbl.is Álíta sig hæfa til að rannsaka syni sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að Haardera

Nýjasta slanguryrði Íslenskra unglinga er sögnin að Haardera..

Þýðing slanguryrðisins samkvæmt orðabók mun vera: að gera ekki neitt af viti.. Dæmi um notkun orðsins úr orðabók: 'Hvað á að gera í kvöld'? 'Í kvöld, ég veit það ekki, ætli ég Haarderi ekki bara í rólegheitunum'... 


Ábyrgðin

Við verðum að bera ábyrgðina, jafnaðarmenn, kratar, því fylgir að við verðum að taka ábyrgðina sem fylgir því sem við erum að gera. Seðlabankinn hækkar vexti í skjóli ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra er yfirmaður seðlabankastjóra. Sjálfstæðisflokkurinn sem heldur okkur í heljargreipum er aukinheldur klofinn í tvennt. Annars vegar eru kratarnir í sjálfstæðisflokknum sem vilja axla ábyrgðina hins vegar er íhaldið sem ætlar að láta almenning borga -skítt með afleiðingarnar.

Stýrivextir eru 18% eftir tæplega 50% hækkun á vaxtastigi í gær, verðbólga er 15,9%  samkvæmt síðustu upplýsingum. Hvenær fáum við meiri vaxtahækkun? Væri ekki réttast að taka bara hlutunum eins og þeir eru og borga fórnarkostnaðinn við jöklabréfin sem væntanlega ráða vaxtaákvörðunum? Á virkilega að reyna að losna undan háum vaxtakostnaði jöklabréfanna með því að reyna að halda uppi neikvæðum vaxtamun á Íslandi?

Við erum að heyra af fjöldauppsögnum um allt land, fólk og fyrirtæki stefna í gjaldþrot.  Hvað ætlum við að láta vitleysuna ganga lengi yfir okkur. Hvenær fer fólk á Íslandi að kveikja í bílum og brjóta rúður? Hvernig ætlum við að halda byggð í landinu?

Norski seðlabankinn var að tilkynna vaxtalækkun núna rétt áðan. Já þið lesið rétt, að sjálfsögðu -vaxtalækkun - aftur!

Hvernig er komið fyrir lýðræðinu þegar þegnar landsins fá ekki að vita hvað er í gangi. Þingmenn fá ekki að tala við blaðamenn og landsmönnum öllum er haldið í helgreipum óttans.

Er ekki einfaldlega komið að því að eini kosturinn í stöðunni er að rjúfa þing og boða til kosninga. Er það ekki ábyrgðin sem við tókum að okkur. Við getum ekki leyst vandann, stjórnin er klofin, annar stjórnarflokkurinn, sjálfstæðisflokkurinn er klofinn. Það er kominn tími til að þjóðin taki ákvarðanir.

Guð blessi Ísland. 

 


mbl.is Ekki benda á mig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterling(s, pund)

ALltaf hægt að finna eitthvað jákvætt við allar fréttir, þessa elsku má tengja bretanum.. Leiðinlegt fyrir hönd starfsmanna félagsins sem fá ekki kaup um mánaðarmótin og missa sennileg vinnuna í kjölfarið. Leiðinlegt að heyra að Danskir starfsmenn geri ráð fyrir að Íslenskir eigendur félagsins fari bara heim. Mér finnst eins og ég hafi nýlega heyrt ansi bratt viðtal við Pálma Haraldsson þar sem hann lýsti því yfir að allt væri í góðu gengi.

Mér finnst það orðið ansi þreytt að heil þjóð sjái fram á erfiða tíma á sömu stund og það rennur upp að útrásarvíkingarnir áttu engan pening, þeir voru einungis meðlimir í pappírsbandalaginu.

Guð gefi ykkur öllum góðan dag!

 


mbl.is Starfsmenn Sterling reiðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipið fer 5ta janúar 2009

Frábært að nágrannar okkar sem við sinnum nú yfirleitt ekkert sérstaklega vel hugsi svona fallega til okkar hér í (villta) vestrinu. Færeyingar fá stóra fjöður í hattinn, 300 danskar millur eða 6 milljarðar íslenskar eru nokkrir fjármunir miðað við íbúafjölda í Færeyjum en því miður held ég að þetta komi of seint og sé þar fyrir utan allt of lítið (gæti kannski dugað fyrir bílalánum viðskiptajötnanna). Of seint vegna þess að óstaðfestar fregnir herma að skipið sem allir bíða eftir leggi að bryggju þann 4ða janúar næstkomandi og fari aftur þann 5ta.

Hver einstaklingur má taka með sér eitt koffort og einn sjópoka. Bíllykla og lykla að íbúðum og öðrum yfirveðsettum, óðaverðbólgubrunnum eignum má afhenda starfsmanni á kajanum sem kemur þeim svo aftur til réttra eigenda bílanna, íbúðanna og annarra eigna landsmanna. Heimildir geta ekki um endanlegan áfangastað skipsins en herma þó að atvinna, vaxtastig og gjaldmiðill séu stöðug á áfangastað.

Gangi ykkur vel og Guð blessi ykkur! 


mbl.is Færeyingar vilja lána Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignaupptaka

Þetta er ekkert annnað en hrein eignaupptaka á eigum almennings. Samanlögð verðbólga og vaxtastig eru komin á óhuggulegt ról. Það má vel vera að fyrir stjórnvöld séu skilyrði IMF aðgengileg en fyrir okkur íbúðareigendur á Íslendi eru þessar aðgerðir allar óviðunandi.

Fjöldagjaldþrot fyrirtækja og einstaklinga blasir við, landflótti mannauðsins dýrmæta er fyrir dyrum.

Við verðum að skipta um í brúnni strax!


mbl.is Vaxtahækkun vegna IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er nóg komið!

Hérna sjáum við enn eina vísbendinguna um hvernig faglegum vinnubrögðum í seðlabankanum er háttað. Nú er nóg komið! Síðast þegar ég athugaði málið vorum við búin að finna út úr því að þessar endalausu vaxtahækkanir virka bara alls ekki. Vísitalan fýkur upp (þar vegur mikið verð á dekkjum, skóm og fatnaði), vextirnir fara í sögulegar hæðir. Nú er nóg komið! Hvað með fyrirtækin í landinu? Hvað með einstaklinga í landinu - heimilin sem átti að bjarga? Nú er nóg komið!

Það verður að stöðva strax gjaldþrotastefnu peningamálastjórnarinnar í landinu. Það verður að stöðva mistakastefnu seðlabankans, það verður að skipta um stjórn í brúnni, við verðum að fá vitrænar aðgerðir -ekki sjálfsmorðsstefnu. Nú er nóg komið!

Legg til að við sendum út neyðarkall upp á gamla mátann -þrjú stutt, þrjú löng, þrjú stutt, látum SOS merkið berast á öldum ljósvakanna þar til við fáum raunverulega björgun. Það er nóg komið!


mbl.is Stýrivextir hækkaðir um 6 prósentur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband